17.6.2015 18:30

Miðvikudagur 17. 06. 15

Gleðilega þjóðhátíð!
Þegar forseti Íslands og forsætisráðherra heiðruðu minningu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli í dag að viðstöddum meðal annarra sendimönnum erlendra ríkja, fjallkonan flutti ljóð, forsætisráðherra flutti ávarp og þjóðsöngurinn var sunginn lamdi hópur fólk blikk og potta til að reyna að hafa betur en forsætisráðherrann. Þetta er dæmalaus dónaskapur á hátíðarstundu og þeim til skammar sem að hávaðanum stóðu. Sama hugsanavillta slagorðið: Vanhæf ríkisstjórn var hrópað og um áramótin 2008/09 og þar með ljóst að þarna voru stjórnarandstæðingar á ferð eins og áður en þeir þögnuðu 1. febrúar 2009 þegar VG eignaðist ráðherra og Steingrímur J. Sigfússon komst í ríkisstjórn.

Hvað vildi þetta hávaðasama fólk yfirgnæfa núna? Meðal annars þennan boðskap Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra:

„Við lýðveldisstofnun árið 1944 skorti Íslendinga ekki sjálfstraust og samheldni, ekki frekar en þegar þeir ákváðu að verða fullvalda þjóð, um aldarfjórðungi fyrr.

En þrátt fyrir áræði og trú á landinu þorðu líklega fáir að vona, að fáeinum áratugum seinna yrði Ísland orðið að fyrirmynd í samfélagi þjóðanna. Að velferðarmælikvarðar sýndu framúrskarandi árangur á flestum sviðum; að almennt heilbrigði hefði aukist stórkostlega, að hér væru lífslíkur einar þær bestu í veröldinni, atvinnuleysi minna en annars staðar og kynjajafnrétti hvergi meira.

Að í alþjóðlegum samanburði væri Ísland talið öruggasta land í heimi, Ísland væri í þriðja sæti á lista yfir þau lönd þar sem best þætti að búa, að jöfn réttindi allra væru betur tryggð en annars staðar og að Íslendingar væru að mati Sameinuðu þjóðanna sú þjóð sem, fremur en nánast allar aðrar þjóðir heims, hefði ástæðu til að vera hamingjusöm, sama til hvaða mælikvarða væri litið.

Þessar staðreyndir alþjóðlegs samanburðar sýna að trúin á framtíðina hefur skilað okkur langt.[…]

Síðustu misseri hafa gefið okkur enn frekari ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn. Ísland stendur nú á ný upprétt í samfélagi þjóða eftir að hafa sigrast á mestu efnahagserfiðleikum síðari tíma með elju og einlægum ásetningi.“