2.6.2015 22:30

Þriðjudagur 02. 06. 15

Því virðast lítil takmörk sett hvaða leiðir eru farnar til að ná sér niðri á stjórnmálamönnum eða til að vekja umtal og ala á grunsemdum. Þetta sannaðist í dag þegar fréttir bárust af því að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hefði borist bréf þar sem hótað var að upplýsa um fjárhagslega aðild hans að kaupum á DV í nafni Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og eiganda blaðsins.

Hér skal látið hjá líða að fara ofan í efnisatriði þessa furðulega máls. Gefið er til kynna að þar búi atvik að baki sem eiga ekkert skylt við stjórnmál heldur einkamál bréfritara og Björns Inga. Um sé að ræða tilfinningaleg átök sem hafi farið út fyrir skynsamleg mörk. Um það allt verður vafalaust upplýst í rannsókn lögreglu og með ákvörðunum saksóknara.

Á visir.is mátti hins vegar lesa:

„Birgitta Jónsdóttir, Kapteinn Pírata, mun krefjast svara við því hvernig hugsanlegum tengslum og eignarhaldi forsætisráðherra á fjölmiðlum er háttað. „Mér finnst nauðsynlegt að fá svör við þessu og ætla að leita leiða til að gera það í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða í fyrirspurnartíma,“ segir Birgitta í samtali við Vísi.


Ef fjölmiðlar hafa einhverju „lögformlegu“ hlutverki að gegna í samfélaginu er það að veita valdhöfum aðhald og sinna þannig eftirlitshlutverki. Sé forsætisráðherra að sýsla með eignarhald á fjölmiðlum á bak við tjöldin gæti það talist trúnaðarbrot við almenning.


Málið hefur vakið mikla athygli sem sýnir sig á samskiptamiðlunum. Þannig skrifar Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þjóðfélagsrýnir á Facebook: „En sé sagan sönn er þetta býsna alvarlegt mál og leiðir hugann að Berlusconi: auðmaður í stóli forsætisráðherra fjármagnar kaup á krítískasta fjölmiðli landsins til að þagga niður í þeirri rödd og eignast enn eitt málgagnið.““

Hafi það verið ætlun höfundar kúgunarbréfsins að draga nafn forsætisráðherra niður í svaðið má segja að það hafi tekist þegar litið er til orða Birgittu og skrifa Guðmundar Andra.

Birgitta er fræg fyrir öfgakennd en ástæðulaus viðbrögð. Guðmundur Andri er þaulsetnasti dálkahöfundur málgagns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og víkur sæti þóknist Jóni Ásgeiri að taka sjálfur til máls í blaði eiginkonu sinnar.