27.5.2015 17:40

Miðvikudagur 27. 05. 15

Í kvöld kl. 20.00 verður á ÍNN sýnt samtal mitt við Ágúst Þór Árnason, kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri og forstöðumann heimskautaréttarseturs við skólann. Við ræðum meðal annars um Grænland og Grænlendinga en Dönum er ekki ljúft að missa landið.

Ágúst Þór skrifaði nýlega blaðagrein um hvort efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi um rýniskýrslu ESB. Hann vísaði þar til þess að viðræðurnar við ESB um aðild Íslands sigldu í strand vorið 2011 þegar ESB skilaði ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Ágúst Þór segir réttilega að tilgangslaust sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna nema tillögumenn um framhald viðræðnanna vilji breyta um stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum í viðræðunum og laga hana að kröfum ESB.

Flokkarnir sem nú flytja tillögu á alþingi um að kosið skuli um framhald viðræðnanna voru á móti slíkri atkvæðagreiðslu um umsóknina sumarið 2009. Þá var unnt að leggja fyrir þjóðina spurningu um umsókn með hreint borð, ef svo má segja, það er hver og einn gat getið sér til um viðbrögð ESB og mælt með aðildarviðræðum eftir eigin hugmyndaflugi.

Nú er hins vegar ljóst að ekkert framhald verður á viðræðum nema þjóðin segi já og slegið verði af kröfunni um ráð yfir 200 mílunum, kröfunni um að Íslendingar semji um flökkustofna og að þeir einir eigi útgerðarfyrirtæki. Nálgist menn ekki málið af slíku raunsæi munu þeir vaða í villu og reyk eins og ríkisstjórn Jóhönnu gerði sumarið 2009.  Ágúst Þór segir þá sem stóðu að umsókninni 2009 ekki hafa unnið heimavinnu sína – í Brussel þekki menn ekki umsókn um að „kíkja í pakkann“, hún sé hvergi til í bókum ESB.

Samtal okkar Ágústs Þórs verður frumsýnt kl. 20.00 – eftir það má sjá það hvenær sem er á flakkara Símans og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun á ÍNN.