25.5.2015 20:40

Mánudagur 25. 05. 15

Á vefsíðu Samfylkingarinnar segir að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, sé „framkvæmdastýra“ Samfylkingarinnar. Hún stjórnar því daglegu starfi flokksins sem gerir tilkall til að teljast helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Sérkennilegt er að þessa sé ekki getið þegar Þórunn eys úr skálum reiði sinnar yfir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í fjölmiðlum.

Þórunn sagði í samtali við ríkisútvarpið laust fyrir miðnætti á hvítasunnudag að svo virtist sem forsætisráðherra áliti að BHM hefði ekki „sjálfstæðan samningsrétt“. Þessi undarlega skoðun er flokkspólitísk en ekki fagleg. Henni er lýst til að gera lítið úr ráðherranum og espa fólk gegn ríkisstjórn hans.

Leikriti formanns BHM var haldið áfram mánudaginn 25. maí, annan í hvítasunnu, á fundi hjá sáttasemjara ríkisins. Eftir þann fund sendi BHM frá sér fréttatilkynningu þar sem m. a. segir:

„Þar [á fundinum] kom skýrt fram að ummæli forsætisráðherra hefðu sett viðkvæmar kjaraviðræður í uppnám. Því fór formaður samninganefndar ríkisins af fundinum með það verkefni að fá svör við því hvort samninganefndin hefði umboð til að gera sjálfstæðan kjarasamning við BHM.“

Engum nema flokkspólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar dettur í hug að láta eins og þeir hafi sent formann samninganefndar ríkisins heim til föðurhúsanna með svo vitlausa spurningu.

Forystumenn BHM eru álíka ráðvilltir og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem vonaði að árás á forsætisráðherra dygði til að blása forystumönnum innan ASÍ verkfallsvilja í brjóst. Annað kom í ljós í dag – verkföllum var frestað í fimm daga. Að óreyndur formaður Verslunamannafélags Reykjavíkur ætli að leiða félagsmenn sína í verkfall með aðeins 14% stuðningi þeirra jafngildir ávísun á vantraust og upplausn,

BHM-forystan hefur staðið fyrir skæruhernaði með verkfallsaðgerðum sínum. Þær bitna á þeim sem síst skyldi og valda forystunni sjálfri nú sívaxandi vandræðum.

Almannatengsl inn á fréttastofu ríkisútvarpsins og reiðilestur yfir forsætisráðherra leysa ekki kjaradeilu BHM. Skynsamlegt skref  til lausnar er að flytja stjórn verkfallsins af skrifstofu Samfylkingarinnar.