23.5.2015 23:00

Laugardagur 23. 05. 15

Fyrir tæpu 31 ári lögðu starfsmenn ríkisútvarpsins niður vinnu. Það varð til þess að frjálsar útvarpsstöðvar komu til sögunnar og öllum varð ljóst að ríkisútvarpið var ekki ómissandi. Þetta kemur í hug núna þegar fréttir berast af ýmsum erfiðleikum sem verða vegna verkfalls opinberra eftirlitsmanna. Þeir eru jafnvel að endurtaka eftirlit sem unnið hefur verið annars staðar.

Tvöfalt eftirlit af þessu tagi innan EES er með nokkrum ólíkindum. Þar til fyrir skömmu var til dæmis tvöfalt vopnaeftirlit við komuna til Íslands frá Bandaríkjunum– annars vegar þegar menn fóru frá flugvelli í Bandaríkjunum og hins vegar þegar þeir komu til Keflavíkurflugvallar. Þessu tvöfalda eftirliti var hætt eftir að samið var um afnám þess milli Bandaríkjanna og ESB.

Hvers vegna skyldi til dæmis ekki mega flytja hunang til landsins án þess að opinber eftirlitsmaður setji stimpil sinn á það? Hefur það ekki þegar verið stimplað í öðru landi?

Opinber eftirlitsiðnaður hefur vaxið sér yfir höfuð. Hann er nú nýttur af opinberum starfsmönnum til að valda sem mestum usla í samfélaginu og þá kemur í ljós hve hann er víðtækur.