19.5.2015 22:15

Þriðjudagur 19. 05. 15

Í dag var efnt til málstofu í Norræna húsinu um öryggismál Norðmanna ég segi aðeins frá því sem þar kom fram á endurgerðri vefsíðu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, vardberg.is og má lesa frásögn mína hér. 

Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður skrifar í Morgunblaðið í dag 19. maí 2015:

„Hvar er komið smekk og dómgreind þeirra sem stýra Ríkissjónvarpinu? Hverjum dettur í hug að bjóða almennum áhorfanda upp á aulaklambur eins og Hraðfréttir? Það hefur stundum heyrst að dagskrá RÚV standist vel samanburð við útsendingar skandinavísku ríkisstöðvanna og annarra Vestur-Evrópu-stöðva. Ef það hefur einhvern tíma verið þá er það liðin tíð. Gelgjuklám og vandræðaklastur getur hugsanlega höfðað til einhverra, en það ristir grunnt og er lítið uppbyggjandi. Enn færa höfundarnir sig upp á skaftið, útsendingar fara í loftið, þar sem við er haft grófasta klám, eins og tíðkaðist á togurum og annars staðar þar sem menn voru krepptir af kynþörf. Hefur nokkurn tíma verið athugað hverjir horfa á Hraðfréttir? Það læðist að manni sá grunur að enginn njóti þeirra eins og höfundarnir. Hvað um það. RÚV er menningarstofnun og ætti ekki að ýta undir ómerkilegt hnoð. Ási í Bæ kallaði slíkt hjal „neðanþindarþrugl“ og fannst það ekki dýrt yrkisefni. Ekkert leikfélag mundi setja þetta á svið.“

Er nokkur von til þess að stjórnendur ríkisútvarpsins taki mark á þessari gagnrýni? Verður hún ekki afgreidd sem hvert annað nöldur? Stöð sem hefur ráð á að framleiða efni af þessu tagi er ekki á flæðiskeri stödd. Þarf hún að vera á framfæri skattgreiðenda?

Spyrja má til hvaða áhorfenda ríkissjónvarpið ætlar að höfða með þætti eins og Páll lýsir hér að ofan – sé það til ungs fólks mælir það ekki með dómgreind þeirra sem þættina gera eða ritstýra dagskránni. Hefur metnaði í dagskrárgerð verið ýtt til hliðar? Ekki er unnt að kenna peningaskorti um skort á dómgreind eða virðingu fyrir áhorfendum.

.