18.5.2015 21:20

Mánudagur 18. 05. 15

Sérstakur saksóknari hefur krafist þungra refsinga yfir þeim sæta ákæru fyrir markaðsmisnotkun í Kaupþingi á árinu 2008. Þetta var bankinn sem ríkisstjórn og seðlabanki vildu reyna að bjarga í október 2008 þegar Glitnir og Landsbanki Íslands voru komnir á vonarvöl. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og aðrir sem fjölluðu sérstaklega um málefni bankanna á vettvangi ríkisstjórnarinnar töldu miklu skipta að einn öflugur viðskiptabanki lifði áfram.

Megi marka það sem fram hefur komið í réttarhöldunum sem staðið hafa undanfarna daga lifðu stjórnendur bankans í eigin blekkingarheimi og lögðu sig fram um að draga aðra inn í hann.

Magnús Guðmundsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur hlotið dóm í Al Thani-málinu og situr enn í réttarsal. Hann hefur oftar en einu sinni talið það til marks um að farið sé offari í nafni réttvísinnar að í greinargerð í frumvarpi til laga um sérstakan saksóknara, sem ég flutti haustið 2008, sé talað um að „sefa reiði“. Að láta eins og það sé eitthvað óeðlilegt að lögum sé breytt eða þau sett í þessu skyni og til að skapa ró og öryggi í samfélaginu sýnir einkennilega afstöðu til lagasmíði eða lagasetningar. 

Í greinargerð með frumvarpinu um sérstakan saksóknara var vitnað í ræðu sem ég flutti í Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmæli lagakennslu á Íslandi 17. október 2008 þar sem ég sagði meðal annars:

„Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.

Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það, hvort og hvernig fall bankanna kemur inn á borð þeirra, sem gæta laga og réttar.“

Að málum hafi verið hagað á þann veg innan Kaupþings sem nú er komið í ljós var utan þess sem mig gat grunað og á það vafalaust við um fjölmarga aðra. Það er skiljanlegt að þeir sem hlut áttu að máli vilji láta kyrrt liggja.