11.5.2015 21:00

Mánudagur 11. 05. 15

Miðvikudaginn 6. maí ræddi ég á ÍNN við Eggert Skúlason, ritstjóra DV, um nýja bók hans: Andersen skjölin.  Viðtalið má sjá hér.

David Miliband hefur gagnrýnt kosningabaráttu Eds, bróður síns, sem sagði af sér eftir að Verkamannaflokkurinn í Bretlandi tapaði kosningunum undir hans forystu í síðustu viku. David segir að flokkurinn hafði skaðast vegna þess að hann hafi ekki lengur staðið fyrir aspirition og inclusion.

Þetta eru orð sem gamlir samstarfsmenn Tonys Blairs nota nú til að skýra muninn á stefnu sinni og vinstri stefnunni sem setti svip sinn á flokkinn undir forystu Eds Milibands. Raunar segja þeir að rót ógæfu flokksins megi rekja til ársins 2007 þegar Gordon Brown tók við sem forsætisráðherra af Blair. David Miliband segir að fráleitt sé að skella skuldinni á kjósendur, þeir hafi ekki skilið boðskap flokksins. Þeir hafi einfaldlega ekki viljað það sem flokkurinn bauð þeim.

Í orðunum aspirition og inclusion felst að í boði sé stjórnmálastefna sem gefi kjósendum kost á að fullnægja metnaði sínum án þess að þeir séu litnir hornauga af samfélaginu. Á íslensku hefur í svipuðu samhengi verið talað um „jöfnuð upp á við“, að öllum sé gefið tækifæri til að njóta sín í krafti eigin vilja og dugnaðar. Boðskapur í þessa veru er greinilega eitur í beinum sósíalistanna í breska Verkamannaflokknum og víðar meðal öfgafullra vinstrisinna.

David Steel (77 ára) var leiðtogi Frjálslynda flokksins í Bretlandi frá 1976 til 1988 þegar flokkurinn breyttist í Frjálslynda lýðræðisflokkinn (Liberal Democrats). Hann birti grein í The Guardian í dag þar sem lýsir sex ástæðum fyrir því að Nick Clegg, fráfarandi formanni flokksins, mistókst að höfða til kjósenda. Hann hafi til dæmis farið alltof hratt í samsteypustjórn með Íhaldsflokknum eftir kosningarnar 2010 og án nægilegs samráðs við sér reyndari menn. Þá hafi það skaðað flokkinn að Clegg gegn stefnu hans um skólagjöld og snerist á sveif með Íhaldsflokknum.

Steel segist vona að meðal frjálslyndra takist mönnum að greina og ræða kosningaúrslitin án reiðinnar og illindanna sem einkenni umræður um málið innan Verkamannaflokksins.