9.5.2015 19:00

Laugardagur 09. 05. 15

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af kosningasigri Íhaldsflokksins á Bretlandi og birti hann hér á síðunni. Traustið í garð breskra íhaldsmanna er reist á þeirri trú kjósenda að ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála sé betur komin í höndum þeirra en Verkamannaflokksins, einkum eftir að hann lenti í höndum sósíalista á borð við Ed Miliband.

Heiftin milli fylkinga innan Verkmannaflokksins sem hallast að mið-vinstristefnu annars vegar og sósíalisma hins vegar er mikil eins og sjá hefur mátt í sjónvarpsþáttum eftir kosningarnar. Þar rifust til dæmis tveir endurkjörnir þingmenn Verkamannaflokksins svo harkalega að varla er skiljanlegt að þeir sitja í sama þingflokki. Þetta stríð magnast næstu mánuði þar til nýr flokksleiðtogi verður kjörinn í september.

Í augum sósíalista er Tony Blair svo mikill skaðvaldur að þeir kenna honum enn um að Verkamannaflokkurinn tapar kosningum þótt hann hafi látið af störfum sem forsætisráðherra árið 2007 eftir 10 ára setu í embættinu. Þessi ágreiningur milli jafnaðarmanna (sósíal-demókrata) og sósíalista minnir á illindin milli jafnaðarmanna og kommúnista á árum áður.

Hér á landi varð þetta grautur í sömu skál þegar Samfylkingin kom til sögunnar fyrir 15 árum þótt vinstri-grænir gættu áfram arfleifðar sósíalista og kommúnista. Tilraunin með Samfylkinguna hefur misheppnast eins og best sannaðist þegar Björt framtíð kom til sögunnar. Eftir að ESB-aðildarmálið varð að engu hvarf límið endanlega úr Samfylkingunni. Forystusveit flokksins skiptist í tvo jafnstóra hópa án þess þó að málefnaágreiningur hafi verið opinberaður.

Nú ganga landskunnir rithöfundar fram fyrir skjöldu og vilja enn einu sinni einhvers konar vinstri uppstokkun hér. Hvort þeir gera þetta að eigin frumkvæði eða tilkvaddir er óljóst. Margrét Tryggvadóttir, fyrrv. alþingismaður, segir í bók sinni útistöðum að Gunnar Steinn Pálsson hafi ráðlagt þingmönnum Borgarahreyfingarinnar að leita til landskunns rithöfundar og biðja hann um að skrifa þingflokkinn frá Borgarahreyfingunni. Gekk það eftir. Skyldi Gunnar Steinn standa að baki greinaskrifum nú frá Samfylkingunni?