5.5.2015 21:30

Þriðjudagur 05. 05. 15

Vilji menn meta hvort hugur fylgi máli hjá þeim sem nú bera ábyrgð á að leysa úr ágreiningi á launamarkaði er auðveldast að gera það með því að hlusta á hverjir láta oftast ljós sitt skína í fjölmiðlum og spá því að hörmungar séu í vændum verði ekki orðið við kröfum þeirra. Að sjálfsögðu verður ekki samið á öldum ljósvakans heldur þegar menn setjast niður með þeim ásetningi að leysa málin. Skyldi það gerast fyrr en almannatenglarnir hafa fengið það sem þeir telja sér bera fyrir sinn snúð?

Það er einkennileg skilgreining á frétt að eitthvað kunni að gerast sé ekki orðið við hótun um hitt eða þetta. Að sjálfsögðu er hér ekki um frétt að ræða heldur hræðsluáróður í því skyni að knýja viðmælanda til að ganga að kröfum. Kaupmáttur er mikill um þessar mundir og öruggasta leiðin til að grafa undan honum er kollsteypa í kjaraviðræðum.

Landsvirkjun hélt ársfund sinn í dag. Þegar sagt var frá því hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag að væntingar væru um tíu til tuttugu milljarða króna arðgreiðslur úr Landsvirkjun á ári taldi fréttamaður ástæðu til að bera það undir Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hvers vegna? Jú, til þess að hann gæti hneykslast á þeim sem seldu ríkinu hlut borgarinnar í Landsvirkjun árið 2006. Sagðist Dagur B. hafa viljað fá hærra verð fyrir hana! „Hann [hluturinn] var seldur fyrir algjört smánarverð miðað við framtíðarverðmæti fyrirtækisins,“ sagði borgarstjóri enda hefðu sjálfstæðismenn farið með stjórn borgarinnar.

Þessi einhliða fréttamennska er með ólíkindum miðað við heiftina og öfundina sem ríkti hjá R-listanum í garð Landsvirkjunar og hvernig talað var niður til fyrirtækisins til að upphefja Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á kostnað þess, einmitt á árunum þegar óráðsían var sem mest hjá OR. Reykvíkingar og aðrir súpa enn seyðið af henni á sama tíma og Landsvirkjun skilar eiganda sínum vaxandi arði. Borgarstjóri ætti að þakka fyrir að Landsvirkjun hafi ekki flutt heimili sitt á brott frá Reykjavík heldur greiði þar enn skatta og skyldur.