27.4.2015 19:00

Mánudagur 27. 04. 15

Í dag var birt svarbréf frá Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Þar er um að ræða svar við bréfi Gunnars Braga til ráðherraráðs ESB frá 12. mars 2015 um að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki og beri að afmá það sem slíkt af listum ESB.

Rinkevics segir að ráð ESB ætli að „take note of“ - taka mið af afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar og síðan í ljósi bréfsins að skoða „certain further practical adjustments to the EU Council working procedures“ það er frekari praktískar breytingar á vinnureglum ESB-ráðsins.

Í þessu felst í fyrsta lagi viðurkenning á að Ísland sé ekki lengur ESB-umsóknarríki og í öðru lagi að breyta þurfi vinnureglum ESB af því að hér standi ráðherraráðið í fyrsta sinn frami fyrir slíkri ósk.

Síðan kemur þessi setning:

„We would like to confirm the importance that the EU attaches to relations with Iceland which continues to be an important partner for the EU through its participation in the European Economic Area agreement, its membership of the Schengen area as well as through co-operation on Arctic matters.“


Í setningunni felst að ráðherraráðið lítur þannig á að samstarfið við Ísland sé ekki við „candidate“, umsækjanda, heldur við EES- og Schengen-aðildarríki auk þess eigi ESB og Ísland samstarf um norðurslóðamál.

Er unnt að búast við skýrara svari í nafni 28 ríkja að fenginni umsögn framkvæmdastjórnar ESB? Varla.


Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur hefur um árabil skrifað dálk í Fréttablaðið á mánudögum. Í gær skilaði hann, að eigin sögn, dálki sem átti að birtast í dag. Ekki birtist neitt eftir Guðmundar Andra í Fréttablaðinu í dag en á stað hans í blaðinu á mánudögum hafði verið sett grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, hæstráðanda Fréttablaðsins.

Efni greinarinnar er gamalkunnugt stef Jóns Ásgeirs um að hann sé ofsóttur af íslenska réttarkerfinu. Hann segir: „En af hverju gerist þetta aftur og aftur? Fyrir mér er svarið einfalt – kerfið sér jú um sína – og ver sig með kjafti og klóm.“  Það eru sem sagt kerfislægar ástæður fyrir að Jón Ásgeir er sóttur til saka.

Spurninginn er hvort Guðmundur Andri láti sér líka að duttlungar Jóns Ásgeirs ráði birtingu dálka hans. Skilur hann kannski átroðninginn sem brottrekstur?