21.4.2015 18:00

Þriðjudagur 21. 04. 15

Kútter Sigurfari á Akranesi og framtíð hans er áhyggjuefni þeim sem telja þetta gamla skip mikilvægan minjagrip úr sögu sjósóknar á Íslandi. Kútter Sigurfari er 86 smálesta eikarskip smíðað 1885 á Englandi. Hann var notaður á Íslandsmiðum fram til ársins 1919, fór þá til Færeyja og var gerður þaðan út til ársins 1970. Hann var gefinn Byggðasafninu í Görðum á Akranesi og hefur verið þar síðan. Árið 1974 var kútter Sigurfari fluttur frá Færeyjum til Akraness á vegum Kiwanisklúbbs Akraness að frumkvæði séra Jóns M. Guðjónssonar. 

Fyrir 40 árum var Þjóðhátíðarsjóður stofnaður en í honum var andvirði myntar sem Seðlabanki Íslands lét slá og selja í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Fé úr sjóðnum var meðal annars veitt til varðveislu menningarminja og runnu styrkir nokkrum sinnum úr sjóðnum til viðgerðar á kútter Sigurfara. Minnist ég farar okkar í sjóðsstjórninni í Byggðasafnið á Görðum til að kynnast því hvernig staðið var að verki.

Nú 40 árum síðar hafa menn árum saman velt á milli sín hugmyndum um að sjósetja kútterinn, ekki sé unnt að vernda hann á landi. Kostnaður við slíka endurgerð kúttersins, sem nú er talinn hættulegur gestum byggðasafnsins, er svo mikill að hún sýnist úr sögunni, megi marka orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætis- og menningarminjaráðherra, á alþingi mánudaginn 20. apríl.

Ráðherrann segir að aðilar málsins sjái núna tækifæri í að haga endurgerð á kútter Sigurfara þannig að hún verði jafnframt menntunar- og þjálfunarvettvangur fyrir handverkið sjálft, fyrir gamla verkhætti og bátasmíðar. Þannig gæfist færi á að mennta hóp ungra handverksmanna með þekkingu á bátasmíð sem síðan yrði mannauðslind fyrir þjóðina alla við endurgerð gamalla báta sem bíða þess um land allt að verða gert gagn. Eigi þessi hugmynd að ganga eftir þarf að gera ýmsar ráðstafanir, svo sem að aflétta þeirri stöðu af skipinu að það teljist til fornminja því að í lögum um menningarminjar er ekki að óbreyttu gert ráð fyrir slíkri endurbyggingu að óbreyttu.

Verði sú leið farin sem þarna er kynnt yrði Sigurfari að lifandi veruleika í höndum þeirra sem fengju tækifæri til að endurgera hann á þennan hátt. Vonandi fæst niðurstaða í málið áður en ekkert stendur eftir nema hættulegar fúaspýtur.