31.3.2015 21:40

Þriðjudagur 31. 03. 15

Í tæp fimm ár hef ég varið nokkrum tíma dag hvern við að afla efnis og skrifa um það á vefsíðuna Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti í samvinnu við Friðbjörn Orra Ketilsson frá 27. apríl 2010. Í kvöld tilkynntum við að hlé hefði verið gert á útgáfu síðunnar og má lesa um það hér.

Meðal rakanna sem nefnd eru í tilkynningunni um þáttaskilin varðandi Evrópuvaktina er sú staðreynd að hugsanleg aðild Íslands að ESB sé fjarlægari nú en fyrir 16. júlí 2009 þegar alþingi samþykkti umsóknarályktunina. Umræður liðinna ára hafi leitt í ljós að allur málatilbúnaður aðildarsinna sé hruninn til grunna.

Hvað sem segja má um aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem fékk skýrt umboð í þingkosningunum í apríl 2013 til að hverfa frá umsóknarferlinu hafa árin tvö sem liðin eru nýst til að afhjúpa blekkingarleikinn í samskiptum stjórnvalda Íslands og ESB þegar látið var eins og allt léki í lyndi en í raun strandaði allt í mars 2011 eins og Össur Skarphéðinsson staðfesti í janúar 2013 þegar hann hætti viðræðunum með þeim orðum að hann væri að „hægja á“ þeim.

Eftir að ljóst var að ekki yrði unnt að ræða áfram við ESB án þess að breyta samningsmarkmiðum Íslands í sjávarútvegsmálum breyttu umsóknarflokkarnir, nú í stjórnarandstöðu, um stefnu og í stað kröfunnar um að halda viðræðunum áfram (kíkja í pakkann) hafa þeir kúvent og vilja nú það sem þeir höfnuðu 16. júlí 2009, að ekki verði rætt meira við ESB nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu.

Hið einkennilega við umræðurnar á þessum punkti er að stjórnarandstaðan sætir ekki gagnrýni fyrir að kúvenda og taka upp allt aðra stefnu en hún boðaði fyrir kosningar heldur beinast spjótin að stjórnarflokkunum fyrir að fylgja stefnu sinni – án þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er þeirrar skoðunar að ESB-aðildarmálið sé svo stórt í sniðum að hvorki stjórnmála- né stjórnkerfið ráði við það. Það er skýr vísbending um hvernig færi fyrir innviðum ríkisins yrði Ísland hluti af Evrópusambandinu.