25.3.2015 21:40

Miðvikudagur 25. 03. 15

Í dag ræddi ég við Guðrúnu Nordal, forstöðumann Árnastofnunar, í þætti mínum á ÍNN. Guðrún er i framboði til rektors Háskóla Íslands en kosið verður hinn 13. apríl. Í síðustu viku ræddi ég við Jón Atla Benediktsson, prófessor og aðstoðarrektor, sem einnig er í framboði. Um 15.000 manns hafa atkvæðisrétt, starfsmenn og námsmenn. Samtal okkar Guðrúnar verður næst sýnt klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti þar til kl. 18.00 á morgun.

Laugardaginn 21. mars birti rússneski sendiherrann grein í Jyllands-Posten í Danmörku og hótaði kjarnorkuárás á dönsk herskip ef Danir yrðu aðilar að eldflaugavarnakerfi NATO. Danir eru furðu lostnir yfir þessari hótun eins og sjá má hér.

Í morgun klukkan 09.00 var loks flutt frétt um þessa hótun Rússa í ríkisútvarpinu og var hún sett í grænlenskt samhengi og að Rússar hefðu sett fána sinn á norðurpólinn fyrir nokkrum árum. Þetta samhengi er á skjön við það sem fyrir Rússum vakir – allt frá því að Reagan og Gorbatsjov kvöddust við Höfða í október 1986 hafa Rússar verið helteknir af ótta við eldflaugavarnir Bandaríkjamanna og síðar NATO.

Eftir að Barack Obama varð Bandaríkjaforseti féll hann frá áformum um að setja stöðvar vegna eldflaugavarna í Tékklandi og Póllandi og vildi hann á þann veg reyna að róa ráðamenn í Rússlandi. Í stað ratsjár- og miðunarstöðva í austurhluta Evrópu var meðal annars ákveðið að nýta herskip. Í ágúst 2014 samþykktu Danir að leggja til eina freigátu í þessu skyni. Reiði rússneska sendiherrans og hótun má rekja til þessa.