21.3.2015 19:20

Laugardagur 21. 03. 15

Það er ekki ein báran stök á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir Árna Pál Árnason og stuðningsmenn hans, þingmennina Kristján L. Möller og Össur Skarphéðinsson. Veist var að þeim úr launsátri með framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gegn Árna Páli og má segja að tilviljun ráði að hann hélt velli. Flokkurinn er klofinn í herðar niður.

Enginn talaði á sínum tíma eins mikið fyrir olíuleit á Drekasvæðinu og Össur Skarphéðinsson, þetta var hjartans mál hans eftir að hann varð iðnaðarráðherra. Nú hefur landsfundur Samfylkingarinnar samþykkt að fallið verði frá áformum um olíuleit á Drekasvæðinu og stjórnvöld lýsi yfir að þjóðin hyggist ekki nýta mögulega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni í samhengi við samninga á alþjóðavettvangi um loftslagsmál. Vinnsla jarðefnaeldsneytis samræmist ekki hagsmunum Íslendinga og skapi hættu á mengunarslysum og umhverfisógn við fiskimið landsins. Þá skaði olíuvinnsla ímynd Íslands sem náttúruparadísar og ferðamannastaðar. Þá eru mistök Samfylkingarinnar í málinu viðurkennd.

Af fréttum má ráða að allir landsfundarmenn nema tveir hafi samþykkt þessa tillögu. Skyldu það hafa verið Kristján L. Möller og Össur Skarphéðinsson sem greiddu atkvæði á móti tillögunni? Hún er túlkuð á þann veg að Samfylkingin sé á leið til nýrra tíma enda hafi ungir jafnaðarmenn náð undirtökum í framkvæmdastjórn flokksins.

Sema Erla Ser­d­ar, frambjóðandi ungra jafnaðarmanna, var kjörin formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hún hefur verið í fremstu röð ESB-aðildarsinna og meðal annars ritstýrt vefblaði sem er einskonar málgagn ESB í íslenskri fjölmiðlaflóru.

Össur getur þó huggað sig við að ungir jafnaðarmenn hafa ekki snúið Samfylkingunni gegn ESB-stefnu hans þótt hann hafi verið úthrópaður í menningarbyltingunni fyrir áhugann á olíuvinnslu á Drekasvæðinu.