17.3.2015 19:15

Þriðjudagur 17. 03. 15

Við blasti strax á fyrsta degi frétta um bréfið sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra afhenti fimmtudaginn 12. mars að ESB-aðildarsinnar utan þings og innan hlupu á sig í hita leiksins. Þeir tóku alltof stórt upp í sig um aðferðina sem ráðherrann beitti til að skýra ESB formlega og afdráttarlaust frá því að Ísland væri ekki ESB-umsóknarríki auk þess sem þeir túlkuðu bindandi gildi þingsályktunartillagna á rangan hátt.

Síðan hefur komið í ljós að meðal ESB-aðildarsinna eru menn alls ekki á einu máli um túlkunina á áhrifum bréfs utanríkisráðherrans, nægir í því sambandi að vísa til ólíkra orða sem Össur Skarphéðinsson annars vegar og Árni Páll Árnason hins vegar hafa látið falla um þetta efni. Össur kýs að lýsa fögnuði vegna bréfsins: „Hann syngur eins og kólibrífugl í mín eyru,“ sagði Össur um utanríkisráðherra og bréf hans á alþingi í dag. Árni Páll krafðist þess á alþingi í gær að bréf utanríkisráðherra yrði afturkallað, hann hefur sagt bréfið jaðra við landráð.

Árni Páll Árnason sendi ásamt öðrum forystumönnum stjórnarandstöðunnar kvörtunarbréf til „stóru Brusselmömmu“ í von um að geta grafið undan áhrifum bréfs utanríkisráðherra.

Við blasir uppnám í röðum stjórnarandstæðinga vegna þessa máls. Um helgina var sagt að þeir veltu fyrir sér að flytja nýja tillögu um viðræður við ESB. Í því fælist endanleg viðurkenning þeirra á haldleysi ályktunarinnar frá 16. júlí 2009. Að þeir flytji vantraust á utanríkisráðherra virðist ekki á dagskrá.

Utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna komu saman á reglulegum fundi í Brussel í dag. Lettneski utanríkisráðherrann sem tók við bréfi Gunnars Braga og situr í forsæti fundarins sagði bréfið ekki koma til umræðu á fundinum til að „trufla ekki umræður“ um málið hér á landi. Bréfið hefur þegar kallað fram mikla gagnrýni á ESB á vefsíðum fjölmiðla sem sagt hafa frá því, einkum í Þýskalandi og Frakklandi.

ESB-ráðamenn hafa sagt að íslensk stjórnvöld ráði stöðu sinni gagnvart ESB. Skirrist þeir við að taka Ísland af umsóknarlistanum ganga þeir á bak eigin orða.