15.3.2015 23:10

Sunnudagur 15. 03. 15

 

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um bréf utanríkisráðherra til ESB þegar hann hafnaði stöðu Íslands sem umsóknarríkis, sjá hér. Að segja ráðherrann hafa farið gegn íslenskum stjórnlögum stenst ekki. Nú segir á ruv.is að formenn stjórnarandstöðuflokkanna ætli í vikunni að leggja fram sameiginlega þingsályktunartillögu um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

Má skilja fréttina á þann veg að sameiginleg tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu sé flutt til að setja bæði þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í vandræðalega stöðu, þeir hafi lofað fyrir síðustu kosningar að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þeir þyrftu nú aftur að rökstyðja það á Alþingi í langdregnum umræðum hversvegna þeir vilji ganga á bak orða sinna,“ segir í fréttinni.

Þetta er enn ein furðufréttin um viðbrögð stjórnarandstöðunnar í þeirri stöðu sem nú hefur skapast. Hún sýnir að forystumenn hennar vita ekkert í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, fyrir þeim vakir ekkert efnislegt varðandi ESB heldur að koma höggi á stjórnarflokkana í von um að geta klofið þá – það hefur verið markmið Össurar Skarphéðinssonar frá upphafi og hafa einhverjir stjórnarsinnar dansað eftir pípu hans. Össur klúðraði hins vegar umsókninni.

Hið einkennilega er að meirihluti utanríkismálanefndar alþingis eða þingsins í heild skuli ekki hafa knúið fram svör stjórnarandstöðunnar við spurningunni um hvernig eigi að taka upp þráðinn þar sem Össur skildi við hann vegna ágreinings um sjávarútvegsmál við ESB. Hvað ætlar minnihlutinn að gera? Hvernig ætlar hann að koma á viðræðum? Þessum spurningum svara forystumenn stjórnarandstöðunnar ekki, þeir vita ekki svörin og þeim stendur á sama af því að fyrir þeim vakir að stofna til vandræða á alþingi.

Það er ekkert sem útilokar að stjórnarflokkarnir leggi fram þingsályktunartillögu um slit aðildarviðræðna þrátt fyrir að það hefði í för með sér lamandi áhrif á störf þingsins vegna andstöðu stjórnarandstöðunnar. Viðmælendur fréttastofu úr stjórnarliðinu segja þó að sú tillaga sé ekki á döfinni.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur verið beðinn um að koma fyrir utanríkismálanefnd Alþingis til að útskýra afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart aðildarviðræðum við ESB. Hann flytur skýrslu fyrir Alþingi á þriðjudag.