13.3.2015 18:30

Föstudagur 13. 03. 15

Vilji menn átta sig á hvað það var sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti Evrópusambandinu fimmtudaginn 12. mars er einfaldast að líta á texta sem birtir eru á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir:

„The Government of Iceland has no intentions to resume accession talks. Furthermore, any commitments made by the previous Government in the accession talks are superseded by the present policy. In light of the above it remains the firm position of the Government that Iceland should not be regarded as a candidate country for EU membership and considers it appropriate that the EU adjust its working procedures accordingly.“

Utanríkisráðuneytið íslenskar þennan texta svona:

„Ríkisstjórn Íslands hefur engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju. Enn fremur yfirtekur þessi nýja stefna hvers kyns skuldbindingar af hálfu fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður.Í ljósi framangreinds er það bjargföst afstaða ríkisstjórnarinnar að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki ESB og lítur hún svo á að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu.“ (Skáletur Bj. Bj.)

Ég skáletra þarna eina setningu vegna þess að misskilja má hana á íslensku. Á ensku fer ekkert á milli mála. Þarna er lýst yfir því á afdráttarlausan hátt að ríkisstjórnin sé óbundin af öllum skuldbindingum sem rekja má til aðildarviðræðna undir stjórn fyrri ríkisstjórnar. Íslenska textann má skilja á þann hátt að ríkisstjórnin „yfirtaki“ eitthvað frá vinstristjórninni.

Af því sem segir í erlendum blöðum er ljóst að þaulvanir blaðamenn velkjast ekki í neinum vafa um hvað felist í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sjá Le Figaro hér og Le Monde hér.

Forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa sent einskonar bænarskrá til Evrópusambandsins. Hún breytir að sjálfsögðu engu um efni tilkynningar utanríkisráðherra. Þá vill formaður þingflokks sjálfstæðismanna efna til sérstakra umræðna um gildi þingsályktana. Einfaldast er fyrir þingmenn að kynna sér íslenskan stjórnskipunarrétt. Nú hefur Spegill ríkisútvarpsins leitt ESB-fræðinginn Eirík Bergmann Einarsson fram sem málsvara þess sjónarmiðs að bréf ríkisstjórnarinnar sé innihaldslaust. Hann ætti að veita stjórnarandstöðunni áfallahjálp.