8.3.2015 20:30

Sunnudagur 08. 03. 15

Í dag fór ég í þáttinn Eyjuna sem Björn Ingi Hrafnsson heldur úti á Stöð 2 og sátum við Ragna Árnadóttir, fyrrv, dómsmálaráðherra, fyrir svörum eftir að Björn Ingi hafði rætt í rúmar 20 mínútur við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Fóru þau yfir umræður um úrskurð Persónuverndar og önnur mál sem hafa verið á döfinni undanfarið og tengjast Sigríði Björk.

Ég hef skrifað um þetta mál dag eftir dag hér á síðuna og hef í raun ekkert við það að bæta sem áður er sagt. Björn Ingi spurði mig hvort ég teldi um herferð fjölmiðla gegn lögreglustjóranum að ræða, ég sagðist aldrei hafa notað það orð en hins vegar blöskraði mér hvernig sótt væri að Sigríði Björk með ásökunum um lögbrot, engin innstæða væri fyrir slíkum fullyrðingum. Þá þætti mér einkennilegt að ráðist væri á mig vegna aldurs míns vegna þess að ég hefði skoðun á málinu. Mér þætti þetta slæm blaðamennska sem drægi úr trú á fjölmiðlum.

Björn Ingi sagði að fjölmiðlar hefðu haldið málinu vakandi. Ég minnti á að tilgangurinn hjá DV hefði verið að koma því á framfæri að Tony Omos ætti von á barni hér á landi til að bæta málstað hans sem hælisleitanda og síðan hefði blaðamaður DV komið lekaskjalinu til lögfræðings og eftir það hefði málið verið kært til saksóknara sem síðan hefði tekið málið í sínar hendur.

Hér má sjá það sem segir um þetta á Eyjunni. 

Satt að segja blöskrar mér heiftin í þeim sem láta eins og þeir hafi í hendi sér að ákveða hverjir hafi framið lögbrot og það jafngildi aðför að réttarríkinu að vera ekki sammála þeim. Þessi framkoma dregur úr trausti á fjölmiðlamönnum og sæmir þeim ekki því að brotið er í bága við grundvallarreglur sem þeim ber að virða.