6.3.2015 18:20

Föstudagur 06. 03. 15

Undanfarið hef ég skrifað hér nokkuð um hvernig fjallað hefur verið um úrskurð Persónuverndar vegna sendingar á gögnum frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum til innanríkisráðuneytisins og hvernig nokkrir fjölmiðlamenn hafa ómaklega veist að Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra að því tilefni. Þar hefur vefblaðið Kjarninn haft forystu. Þórður Snær Júlíusson ritstjóri taldi mig vega að heiðri blaðsins og sér í skrifum mínum en greip til þess ráðs að fjalla einkum um að ég væri marklaus vegna aldurs míns. Þetta er afstaða reist á ómálefnalegum grunni og í ætt við að draga fólk í dilka eftir kyni, kynþætti eða andlegu atgervi.

Í anda greinar ritstjórans urðu nokkrar umræður á Facebook og hóf Bragi Páll skáld þær og bættust síðan nokkrir vinir hans í hópinn. Bragi Páll lýsir tilgangi þeirra í ljóði mér til heiðurs:

Nei, það er af því þú ert strand. Vitfirrt gamalmenni. 

Þetta eru engar helvítis rökræður, þú ert búinn að vera. Við erum að benda á þig og hlægja. Tjöldin eru fallin Björn. 

Þú og þitt þjófa hyski eruð ekki aðeins búin að missa völdin heldur fór allt vit og rökhugsun með.Þetta eru ekki rökræður, þetta er útför. 

Afhverju að eyða tíma sínum í karp við fallna og glataða keisara. En haltu endilega áfram að sprikla, pikkfastur í vef lyga og spillingar. 

Og við munum halda áfram að benda og hlægja,á sorglega, vitfirrta risaeðlu.

Satt að segja finnst mér texti eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur, ritstjóra DV, á vefsíðu blaðsins í dag mun betri en hin ömurlega hugarsmíð Braga Páls. Hér má lesa texta Kolbrúnar