24.2.2015 17:15

Þriðjudagur 24. 02. 15

 

 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, viðraði skoðanir sínar gegn forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu á alþingi þriðjudaginn 24. febrúar og spurði Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra hvort hann hefði einhverjar skoðanir á því hvort veita ætti slíkar heimildir. Utanríkisráðherra svaraði:

„Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hvort lögregluyfirvöld eða aðrir eigi að hafa þessar heimildir eða aðrar. Ég verð hins vegar að segja að það er mín skoðun, og kemur því ekki við hvort ég er utanríkisráðherra eða ekki, að ég tel að lögreglan eigi að hafa nauðsynlegar heimildir til að geta sinnt því að verja okkur borgarana en hún þarf að fara að vel með þær heimildir.“

Ólöf Nordal innanríkisráðherra ræddi um þessi mál á fundi Varðbergs 5. febrúar og talaði á svipaðan hátt og utanríkisráðherra. Þessir tveir ráðherrar hafa öryggismál þjóðarinnar á sinni könnu. Ef þeir taka ekki af skarið á pólitískum vettvangi um hvað gera skuli til að lögreglan geti sinnt hlutverki sínu er þess ekki að vænta að nokkur geri það.

Utanríkisráðherra boðaði að á næstunni mundi hann leggja fram tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggi sem yrði reist á tillögum nefndar allra flokka sem lauk störfum á síðasta ári.

Er ekki að efa að tillagan verði reist á nýju hættumati. Á vegum innanríkisráðuneytisins starfar greiningardeild ríkislögreglustjóra sem birtir reglulega mat sitt. Engin sambærileg starfsemi er rekin á vegum utanríkisráðuneytisins svo að vitað sé.

Hið opinbera áhættumat sem snertir hernaðarlega þátt öryggismálanna er frá 2009 og því varla haldbært lengur. Verður forvitnilegt að sjá hvort nýtt mat á hernaðarlega þættinum fylgir tillögu utanríkisráðherra þegar hún verður kynnt.

Að því er varðar heimildir lögreglunnar til forvirkra rannsókna er ekki líklegt að umræður verði um þær nema ríkisstjórnin leggi fram tillögu til að ræða. Vilji hvorki innanríkisráðherra né utanríkisráðherra taka af skarið liggur málið áfram í þagnargildi.