18.2.2015 18:50

Miðvikudagur 18. 02. 15

Í dag ræddi ég við Ernu Bjarnadóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum innflutning á matvælum og þróun eftirspurnar frá árinu 2010 þegar ferðamannastraumur tók að aukast af miklum þunga. Þá fórum við einnig orðum um viðræðurnar við ESB um landbúnaðarmál vegna aðildarumsóknarinnar. Þær viðræður komust aldrei á neitt flug og algjör óvissa ríkti um stöðu þeirra þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sló viðræðunum á frest fyrir rúmum tveimur árum. Erna færir sterk rök fyrir nauðsyn þess að afturkalla ESB-umsóknina. Samtalið verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.

Í dag hefjast útsendingar hjá sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem virðist komið á laggirnar til að halda fram sjónarmiðum ESB-viðræðu- eða aðildarsinna. Hugmyndin er í raun tekin frá Ingva Hrafni Jónssyni sem hefur af áræði og dugnaði haldið úti ÍNN síðan 2. október 2007 þegar fyrsta dagskráin var sýnd. Á ÍNN hafa sjónarmið ESB-aðildarsinna ekki endilega átt upp á pallborðið þótt þau komi að sjálfsögðu fram í orðum viðmælenda og þáttarstjórnenda. Ingvi Hrafn hefur margáréttað þá skoðun sína að hann vilji sjá innihaldið í ESB-pakkanum. Ég tel hins vegar að það sé þjóðinni of dýrkeypt að láta stjórnast af þeirri forvitni því að hún leiði meðal annars til þess að slá verði af kröfunni um full ráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Mér finnst ekki líklegt að ÍNN líði fyrir komu Hringbrautar inn á þennan markað. Aðstöðumunur er þó að sjálfsögðu nokkur miðað við fjármunina sem eru að baki nýju stöðinni og fjársterka aðila sem að henni standa til að verja sérhagsmuni sína í þágu ESB-aðildar. Skoði menn málið ofan í kjölinn sést að þeir sem hæst tala um nauðsyn þess að halda í hina dauðu aðildarumsókn eru þeir sem tala fyrir hönd einstakra fyrirtækja eða fjárfesta í þeim. Þessi sérhagsmunagæsla er svo rík að krafist er að öllum öðrum hagsmunum sé ýtt til hliðar, meðal annars því sem felst í fullveldi þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni.

Fjölgun innlendra sjónvarpsstöða leiðir almennt til meira áhorfs. Dreifingin mill stöðva er breytileg eftir því hvaða efni er sýnt þótt það breytist einnig þegar menn geta búið til sína eigin dagskrá á þeim tíma sem þeir kjósa eins og gera má í gegnum myndlykla Símans sem ég þekki. Þetta er í raun byltingarkennd breyting á þjónustu við áskrifendur og hún minnir á þörf fyrir sjónvarpsefni sem vekur áhuga er ótæmandi.