15.2.2015 21:00

Sunnudagur 15. 02. 15

Frakkar sýna Dönum mikla samúð vegna hryðjuverkanna í Kaupmannahöfn þegar byssumaður gekk þar um götur laugardaginn 14. febrúar og drap kvikmyndaleikstjóra á fundi um tjáningarfrelsið og vaktmann við bænahús gyðinga. François Hollande Frakklandsforseti fór í danska sendiráðið í París í dag og ræddi við sendiherrann í fimmtán mínútur og flutti samúðarkveðjur fyrir hönd frönsku þjóðarinnar.

Forsetinn sagði að tengsl væru milli hryðjuverkaárásanna í París fyrir fimm vikum og þess sem gerðist í Kaupmannahöfn:

„Það sem gerðist í gær hafði þegar gerst í Frakklandi fyrir rúmum mánuði, skotmörkin voru hin sömu. […] Það er ekki um nein samtakatengsl að ræða heldur um sama ásetning hryðjuverkamanns til að ráðast gegn því sem við erum. Gildum okkar.“

Hann lauk yfirlýsingu sinni fyrir framan sendiráðið með þeim orðum að hjá Frökkum og Dönum væri „sami vilji til að snúast til varnar, berjast“.

Atburðirnir í París og Kaupmannahöfn sýna að óeðlið sem býr að baki voðaverkunum getur dafnað í suðri og norðri í Evrópu. Hvarvetna verða greinendur og gæslumenn öryggis hins almenna borgara að auka aðgæslu sína. Þótt erfitt sé að hafa hendur í hári einfara sem láta einungis stjórnast af eigin heift og ranghugmyndum hafa yfirvöld ekki leyfi til að láta deigan síga og þess vegna er líklegt að hvers kyns eftirlit sem einnig bitnar á almennum, friðsömum borgurum muni halda áfram að aukast.