10.2.2015 19:10

Þriðjudagur 10. 02. 15

Viðtal mitt við Halldór Benóný Nellett skipherra sem birtist á ÍNN hinn 4. febrúar 2015 er komið á netið og má sjá það hér. Við ræddum þátttöku landhelgisgæslunnar í starfi FRONTEX, Landamærastofnunar Evrópu, og björgunarstörf vs Týs á Miðjarðarhafi.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að rigna muni „eldi og brennisteini“ á alþingi leggi utanríkisráðherra fram tillögu um að draga hina dauðu ESB-umsókn til baka. Þá er ljóst að Össur ætlar að gera allt sem í hans valdi stendur til að ala á sundrungu innan Sjálfstæðisflokksins flytji utanríkisráðherra tillöguna.

Þetta eru óvenjulegar hótanir ráðherrans sem stóð fyrir ESB-umsókninni og forklúðraði síðan málinu á þann veg að í ársbyrjun 2013 lagði hann til að viðræðum við ESB yrði slegið á frest. Össur hafði þá síðan í mars 2011 árangurslaust reynt að blása lífi í viðræðurnar. Á árinu 2012 gekk hann fyrir hvern erlenda stórhöfðingjann eftir annan til að knýja á um framhald viðræðna um sjávarútvegsmál innan ramma aðildarviðræðnanna. Allt kom fyrir ekki og háðuglegast fór Alain Juppé, þáverandi utanríkisráðherra Frakka, með íslenska ráðherrann.

ESB-viðræðunum verður ekki fram haldið nema utanríkismálanefnd alþingis breyti umboðinu sem þáverandi meirihluti utanríkismálanefndar veitti í áliti sínum vegna umsóknarinnar sumarið 2009. Það verður að slá af kröfum í sjávarútvegsmálum, vegna þeirra stöðvaði ESB viðræðurnar. Í meirihlutaálitinu um sjávarútvegsmál sá ESB ekki neina aðlögunarglufu. Að Íslendingar breyti sáttmálum eða sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB verður ekki – tímabundin aðlögun er hið eina sem kemur til greina. Hún er ekki einu sinni í boði nema Íslendingar breyti samningsumboðinu.

Þetta veit Össur. Í stað þess að flytja tillögu um nýtt samningsumboð í sjávarútvegsmálum hellir hann úr skálum reiði sinnar vegna tillögu sem hann vill koma í veg fyrir að utanríkisráðherra flytji. Utanríkisráðherrann er ekki bundinn af því að alþingi samþykki afturköllun umsóknarinnar, hann getur kallað hana aftur með einföldu bréfi til ESB. Hvers vegna velur ráðherrann ekki þann kost í stað þess að kalla „eld og brennistein“ yfir alþingi?