7.2.2015 18:40

Laugardagur 07. 02. 15

Meðal þess sem mikið var rætt eftir uppgjörið við fjármálakerfið haustið 2008 var að efla yrði lýðræðislegar umræður í samfélaginu. Það yrði til dæmis gert með því að opna umræður meira en áður um umdeild mál. Þrjú slík mál eru nú á döfinni. Í fyrsta lagi frumvarp um náttúrupassa, í öðru lagi frumvarp um kvótakerfið og loks spurningin um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

Í öllum þessum málum hafa ráðherrar kynnt ákveðin sjónarmið en jafnframt sagt að þeir séu reiðbúnir að taka þátt í opinberum umræðum um málin og hlusta á önnur sjónarmið. Þá ber svo við að fréttastofa ríkisútvarpsins kýs að setja frumvörpin tvö inn í þann „fréttaramma“ að ráðherrarnir eigi undir högg að sækja af því að innan þeirra eigin flokka eða í röðum stjórnarliða á alþingi séu ekki allir á sama máli og ráðherrarnir.

Auðvelt er að færa fyrir því rök að það sé frekar „fréttaramminn“ sem móti umræðurnar en efni málsins. Þessi fréttatök vinna beinlínis gegn áhuga ráðherra og annarra á að leggja mál fram með því fororði að þeir sætti sig við að þau taki breytingum eftir þinglega meðferð. Mönnum er að sjálfsögðu illa við að opin málsmeðferð af þessu tagi sé lögð út á þann veg að sá sem stuðlar að henni sé að verða undir ef einhver er honum ósammála. Í þessu efni eru þeir sem smíða „fréttarammann“ að vinna gegn þróun sem er í takt við áhuga á að virkja sem flesta við töku mikilvægra ákvarðana í opnu, lýðræðislegu samfélagi.

Innanríkisráðherra hefur sett forvirkar rannsóknarheimildir á dagskrá án þess að leggja fram frumvarp eða hafa mótað sér ákveðna skoðun. Ráðherrann gerir þetta í von um að umræður um málið skili breiðri samstöðu um það. Hér er mál á ferðinni sem snertir öryggi borgaranna og vilji þeir ekki að til sögunnar komi tæki sem hvarvetna er talið auka þetta öryggi er það niðurstaða á ábyrgð þeirra sem að henni komast.

Meðferð stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á ESB-málinu og stjórnarskrármálinu var andstæð öllum hugmyndum um að virkja almenning án tillits til þröngra flokkssjónarmiða. Ríkisstjórnin klúðraði báðum málunum.