5.2.2015 19:00

Fimmtudagur 05. 02. 15

Fjölmenni var á fundi Varðbergs í hádeginu í dag þar sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti fyrsta opinbera erindi sitt um löggæslu og öryggismál í alþjóðlegu samhengi.

Meðal þess sem hún gat um í yfirgripsmikilli ræðu sinni var skýrsla sem tveir sérfræðingar Evrópusambandsins unnu í tíð minni sem dómsmálaráðherra og kynnt var sumarið 2006. Skýrslan sem má sjá hér vakti miklar umræður og í framhaldi af henni var margvísleg vinna unnin í ljósi hennar. Ég fór til dæmis með fulltrúum allra þingflokka á þessum tíma í kynnisferð til Danmerkur þar sem við hittum stjórnmálamenn og embættismenn sem fjalla um þjóðaröryggismál.

Hér er um málefni að ræða sem æskilegt er að um ríki víðtæk pólitísk sátt og trúnaður eins og er að jafnaði í nágrannalöndunum. Þar sem ég taldi ekki líkur á að ná mætti slíkri samstöðu hér á þeim tíma sem ég hafði til umráða lét ég málið niður falla. Ég fagna því að Ólöf Nordal taki þráðinn upp að nýju með þeim formerkjum sem hún gerir. Reynir nú á hvort málið hafi „þroskast“ á þann veg á tæpum áratug að unnt sé að ræða það á þann opna hátt sem ráðherrann vill að gert verði. Það kemur í ljós.

Á vefsíðunni ruv.is segir um fundinn:

„Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, vill að umræða fari fram um hvort nauðsynlegt sé að stofna þjóðaröryggisdeild. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Speglinum í kvöld.

Í skýrslu sem erlendir sérfræðingar unnu fyrir dómsmálaráðuneytið 2006 var gert ráð fyrir allt að 30 manna starfsliði og að deildin hefði forvirkar rannsóknarheimildir eins og til dæmis heimild til hlerana. Ráðherra vill ekkert segja um hvort að slík deild þurfi á forvirkum heimildum að halda. Það þurfi bara að ræða.“

Nú kemur í ljós hvort unnt er að ræða þetta mál án upphrópana eða útúrsnúninga. Þetta getur snúist um dauðans alvöru.