4.2.2015 20:00

Miðvikudagur 04. 02. 15

Í dag ræddi ég við Halldór Benóný Nellett skipherra í þætti mínum á ÍNN um störf Landhelgisgæslu Íslands fyrir Frontex, Landamærastofnun Evrópu, og ferð hans með varðskipinu Tý þar í ársbyrjun. Þáttinn má sjá kl. 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Hér má sjá viðtal mitt við dr. Janus Guðlaugsson, lektor við Háskóla Íslands, á ÍNN miðvikudaginn 28. janúar.

Umboðsmaður alþingis skilaði áliti föstudaginn 23. janúar vegna athugunar sem hann hóf á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra vegna rannsóknar lögreglu á lekamálinu svonefnda. Daginn eftir ræddi fréttastofa ríkisútvarpsins við Stefaníu Óskarsdóttur, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem fór mikinn og taldi Hönnu Birnu öllu trausti rúna.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, birtist í fréttatíma sjónvarps ríkisins sunnudaginn 25. janúar og á ruv.is segir:

„Álit umboðsmanns Alþingis á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, er mjög alvarlegt. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði.

Trúverðugleiki hennar sem þingmanns hafi beðið hnekki. Umboðsmaður slái því föstu að hún hafi ítrekað harkalega gagnrýnt rannsókn lögreglunnar á lekamálinu og það brjóti í bága við lög og reglur.“

Mánudaginn 2. febrúar birti innanríkisráðuneytið minnisblað eftir Hafstein Þór Hauksson, lektor í lögfræði við Háskóla Íslands. Hann hafði rýnt álit umboðsmanns og greint hvort þar kæmu fram athugasemdir  sem sneru að innanríkisráðuneytinu og stjórnsýslu þess.

Hafsteinn Þór segir að athugasemdir umboðsmanns við starfshætti stjórnvalda geti í megindráttum beinst að þremur atriðum: Í fyrsta lagi að lög eða stjórnvaldsfyrurmæli hafi verið brotin. Í öðru lagi að brotið hafi verið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða siðareglum. Í þriðja lagi að meinbugir séu á gildandi lögum. Lektorinn segir að umboðsmaður beini engum sérstökum tilmælum til innanríkisráðuneytisins, þó séu gerðar athugasemdir við ákveðin atriði í starfsemi ráðuneytisins, t.d. skráningu funda og stöðu aðstoðarmanns. Athugasemdirnar snúist „fyrst og fremst að hinum pólitíska hluta ráðuneytisins“.

Við lestur greinargerðar Hafsteins Þórs vaknar spurning hvaða mælikvarða stjórnmálafræðimennirnir hafi notað til að fella þunga dóma sína í tilefni af áliti umboðsmanns.