3.2.2015 21:00

Þriðjudagur 03. 02. 15

Ólöf Nordal innanríkisráðherra bað Hafstein Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, að rýna hið langa álit sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, skrifaði til að réttlæta frumkvæðisathugun sem hann ákvað eftir að hafa lesið um lekamálið í DV í lok júlí 2014.

Í stuttu máli má segja að lektorinn hafi ekki fundið neitt bitastætt í álitinu. Þar sé ekki að finna neinar ábendingar til innanríkisráðuneytisins um það sem betur megi fara, almennum orðum sé farið um að leiðbeina eigi aðstoðarmönnum ráðherra um verklag þeirra og þá sendi umboðsmaður ábendingar um almenn atriði til forsætisráðherra.

Umsögn lektorsins er í hróplegri andstöðu við stóryrði ýmissa í fjölmiðlum og á alþingi strax eftir að álit umboðsmanns birtist og líklega í einhverjum tilvikum áður en álitsgjafar höfðu lesið það.

Hér hefur því verið haldið fram að bréfið sem Hanna Birna Kristjánsdóttir ritaði umboðsmanni alþingis 8. janúar 2015 hafi gert honum kleift að fóta sig í málinu. Hann sá samt ástræðu til að fetta fingur út í orðalag í bréfinu.

Ritæfingarnar um lögfræðileg álitamál í texta umboðsmanns eru innihaldslitlar eins og rýniskýrsla Hafsteins Þórs Haukssonar sýnir. Ætli frumhlaup umboðsmanns hafi ekki helst framtíðargildi sem áminning um að rétt sé að hugsa sig um tvisvar áður en lagst er í opinberar rannsóknarvinnu eftir lestur á DV, að minnsta kosti sé blaðið undir ritstjórn Reynis Traustasonar.

Persónuvernd hefur ekki birt niðurstöðu sína í rannsókn á viðbrögðum þáv. lögreglustjóra á Suðurnesjum við ósk aðstoðarmanns innanríkisráðherra um gögn í útlendingamáli sem var til ákvörðunar í ráðuneytinu. Tvennt ber að hafa í huga þegar rætt er um þessi viðbrögð: Í fyrsta lagi hafði skjalinu sem er þungamiðja lekamálsins verið lekið þegar lögreglustjórinn brást við ósk aðstoðarmannsins. Í öðru lagi var ekki um gögn í sakamáli að ræða heldur útlendingamáli sem ráðuneytið hafði til meðferðar.

Þeir sem hæst hafa talað um rannsókn í nafni persónuverndar horfa fram hjá þeim tveimur lykilstaðreyndum málsins sem hér eru nefndar.