31.1.2015 16:00

Laugardagur 31. 01. 15

Í tilkynningu sem hefur verið sett á vefsíðu sveitarfélagsins Rangárþings eystra á Hvolsvelli segir:

Rangárþing eystra hefur samið við 365 miðla um uppsetningu á háhraða nettengingu í sveitafélaginu. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og að skrá áhuga sinn á að nýta sér þessa þjónusta á heimasíðu þeirra.“

Þá er áhugasömum bent á að hafa samband við fulltrúa sveitarstjórnar í starfshópi um bætt samskipti.

Í tilkynningunni er þeim sem áhuga hafa bent á að fara inn á síðuna lofthradi.is og skrá sig en á síðunni segir meðal annars:

„Á 365 Lofthraða er hægt að ná allt að 30 Mb/s hraða. 365 Lofthraði er lokað fastanet en ekki farnet eins og 3G/4G og því mun færri notendur á hvern sendi heldur en á 3G/4G. Með því næst stöðugur hár hraði.“

Af þessu má ráða að 365 sé þarna að bjóða aðgang að lokuðu neti í keppni við símafyrirtæki sem bjóða 3G/4G. Ekki kemur fram hvaða búnað menn þurfa að hafa til að tengjast þessu neti.

Hvað sem tæknilegri hlið málsins varðar er nýmæli að sjá að sveitarfélag hafi samið um fjarskipti við 365. Hvar hefur þessi nýja þjónusta verið kynnt? Er hér um tilraunaverkefni að ræða?

Tilkynningin á vefsíðu Rangárþings eystra sýnir svo að ekki verður um villst að 365 þróast frá fjölmiðlarekstri í fjarskiptastarfsemi.