28.1.2015 18:50

Miðvikudagur 28. 01. 15

Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN viðtal mitt við dr. Janus Guðlaugsson, lektor við Háskóla Íslands. Í september varði hann doktorsritgerð sína við háskólann í íþrótta- og heilsufræði. Hann hefur rannsakað áhrif þol- og styrkleikaæfinga á öldrun. Í samtali okkar kemur fram að aldrei er of seint að hefja þessar æfingar til að auka eigin lífsgæði og draga úr líkum á ótímabærri hrörnun. Hið undarlega er raunar að ekki skuli gert skipulagt átak á þessu sviði til að minnka álag á heilbrigðiskerfið.

Eins og lesendur síðu minnar vita hef ég í rúm 20 ár lagt stund á qi gong með góðum hópi fólks sem æfir eftir kerfi sem Gunnar Eyjólfsson hannaði og lýst er í bókinni Gunnarsæfingarnar sem kom út í fyrra.

Qigong nýtur vinsælda víðar eins og sjá má hér. Þarna segir frá Ingu Björk Sveinsdóttur sem leiðir qigong tvisvar í viku hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, hóf hún að gera það haustið 2013. Hún segir: „Það er ekki nóg að lifa lengi, menn þurfa líka að lifa vel. Í Qigong beitum við heilunaraðferðum sem virka, við beitum hugarorkunni, önduninni, hreyfingu og hugleiðslu. […]Ég kynntist þessu kerfi fyrst þegar vinur minn gaf mér bók eftir meistarann Chunyi Lin, sem skóp kerfið sem ég nota, hann kallar þetta kerfi Spring Forest Qigong.

Þá segir á vefsíðunni Lifðu núna:

 „Qigong er gott og fyrirbyggjandi fyrir alla. Það er sérstaklega hentugt fyrir eldra fólk, vegna þess að það þarf enga sérstaka fimi til að stunda það“, segir Inga Björk,en Qigong bætti hennar líf í alla staði. Hún segist alltaf hafa verið virk í skapandi starfi af ýmsu tagi, jafnvel pínulítið ofvirk. Hún hafi haft mikið að gera, verið með stórt heimili, séð um öll boð sjálf með tilheyrandi áhyggjum og þreytu. Eftir að hún fór að stunda Qigong fann hún fljótt mikinn mun á orkunni og þreyta, kvef og pestir eru ekki lengur til í hennar orðabók.“

Eins og sjá má af þessu eru qigong-æfingar til mikils gagns en eins og kemur fram í samtali okkar Janusar er gott að leggja stund á fleira til að efla þol og styrk á efri árum.