19.1.2015 21:15

Mánudagur 19. 01. 15

Í fréttum af málum á vorþinginu sem hefst á morgun er talið að einhverjar umræður verði um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands en frumvarp um þær var lagt fram 3. desember sl. Í inngangi athugasemda við frumvarpið segir:

 „Ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands tóku gildi í september 2011. Á þeim tíma sem liðinn er frá gildistöku laganna hefur fengist reynsla af ýmsum þeirra fjölmörgu breytinga sem lögin fólu í sér. Tilgangur og markmið þess lagafrumvarps sem hér er lagt fram er annars vegar að bæta úr ágöllum sem fram hafa komið. Þar á meðal er lagt til að almenn heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stjórnvalda sem undir hann heyra, nema á annan veg sé mælt í lögum, verði endurvakin en slík lagaheimild féll niður við endurskoðun laganna árið 2011 án þess þó að séð verði að það hafi verið sérstakt markmið við endurskoðun laganna enda ekkert fjallað um breytinguna í athugasemdum við frumvarp til laganna. Verður talið nauðsynlegt að í lögum sé slíkt ákvæði vegna túlkunar Hæstaréttar á 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. nánari umfjöllun í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins. Hins vegar eru m.a. lagðar til breytingar sem miða að því að auka sveigjanleika framkvæmdarvaldsins til að skipuleggja störf sín eins og best er talið á hverjum tíma, og til að bæta upplýsingagjöf og faglega stjórnsýslu innan Stjórnarráðsins. Jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða siðareglur sem miða að því að efla innleiðingu og eftirfylgni með þeim innan Stjórnarráðsins.
    Frumvarpið er samið í forsætisráðuneytinu að höfðu samráði við önnur ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands. Þá var haft samráð við samtök stéttarfélaga starfsmanna ríkisins um efni b-liðar 10. gr. og er nánar vikið að afstöðu samtakanna í athugasemdum við greinina.“

Miðað við hvernig vegið var að stjórnarráðinu af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er sérkennilegt hve metnaðarlitlar þessar breytingar á stjórnarráðslögunum eru hjá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sýnist tilgangurinn einkum að lögfesta heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana (Fiskistofu) án þess að leita samþykkis alþingis um aðsetrið.

Ef grannt er skoðað má komast að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um að hafa tvo ráðherra í einu ráðuneyti styðjist í besta falli við mjög óljósan lagabókstaf ef þá nokkurn og er einkennilegt að ekki skuli tekið á þessu álitamáli í frumvarpinu. Enn sérkennilegra er þó að ekki skuli gengið til þess að koma á fót dómsmálaráðuneyti að nýju. Yfirlýsingar ráðherra hafa hnigið í þá átt að þeir telji skynsamlegt að endurreisa dómsmálaráðuneytið – engin merki um það sjást hins vegar í frumvarpinu.