16.1.2015 19:10

Föstudagur 16. 01. 15

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir í Morgunblaðinu í dag:

„Þegar aðild Íslands að Schengen varð að veruleika á sínum tíma má segja að aðildin hafi verið seld okkur í lögreglunni, á þann veg að eftirlitið sem áður var á landamærunum færðist inn fyrir landamærin og þetta yrði gert með þeim hætti að lögreglan væri efld, fjölgað yrði í lögreglunni og fjárveitingar til hennar auknar. Þau fyrirheit hafa aldrei gengið eftir. Sú efling sem átti að verða í löggæslunni við það að vegabréfaeftirlitið var lagt af innan Schengen-svæðisins hefur aldrei orðið að veruleika.“

Frá því að Ísland varð aðili að Schengen-samstarfinu hefur verið lögð meiri áhersla en áður á landamæraeftirlit sem reist er á greiningu. Heimildir til þess að safna upplýsingum sem reistar eru á farþegaskrám hafa aukist og aðgangur að Schengen-gagnagrunnum eykur gildi greininga af þessu tagi. Á hinn bóginn er ekki unnt að sinna þessu eftirliti nema til þess sé ráðinn og þjálfaður mannafli. Í því efni hvílir mestur þungi á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum en 98% þeirra sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll.

„Lögreglumenn eru ekki síður þreyttir á því að þurfa sí og æ að vera að réttlæta kaup á nauðsynlegum búnaði fyrir misvitrum mönnum, sem vitna í tölvuleiki til þess að fá einhverja innsýn í mál, sem verið er að fjalla um hverju sinni,“ sagði Snorri einnig við Morgunblaðið  og vitnaði til furðulegra ummæla þingmanns pírata.

Þá vekur Snorri Magnússon athygli á þeirri staðreynd að lögreglan hér fær ekki upplýsingar frá lögreglunni á hinum löndunum á Norðurlöndum, sem varða öryggismál Íslands og Íslendinga, vegna þess að lögreglan hér á landi býr ekki við löggjöf um varðveislu gagna sem stenst kröfur embætta á borð við PST í Noregi, PET í Danmörku eða MI5 í Bretlandi.

Nú eru sagðar fréttir af forvirkum aðgerðum lögreglunnar í Belgíu til að uppræta hryðjuverkagreni en í þeim hafa meðal annars fundist gögn sem sýna að hryðjuverkamennirnir hafi haft áform um að myrða lögreglumenn til að grafa undan öryggiskennd almennings og skapa sem mesta hræðslu í landinu.

Unnt er að grafa undan trausti í garð lögreglu á ýmsan hátt. Neyðarleg ummæli svo að ekki sé talað um viðleitni til að veikja úrræði lögreglu til að tryggja eigið öryggi og þar með annarra samrýmist ekki frumskyldu þeirra sem bjóða sig fram til að gæta hagsmuna almennings.