13.1.2015 19:15

Þriðjudagur 13. 01. 15

Miklar umræður fara nú víða fram um hvort herða verði eftirlitsheimildir stjórnvalda í Evrópu til að tryggja betur öryggi borgaranna. Almennt er varað við að ganga eins langt og Bandaríkjamenn gerðu með The Patriotic Act nokkrum vikum eftir hryðjuverkaárásina 11. september 2001. Á hinn bóginn er bent á að síðan hafi tekist að bægja hryðjuverkum frá Bandaríkjunum fyrir utan ódæðið í Boston árið 2013.

Rætt var við mig í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og vildu þeir félagar heyra skoðanir mínar á heimildum íslenskra stjórnvalda til að greina hættu og gera áhættumat. Ég benti á greiningardeild ríkislögreglustjóra en minnti á að hér starfaði ekki leyniþjónusta og því væri ekki um forvirkar rannsóknarheimildir að ræða en margir teldu þær duga best til að hindra hryðjuverk. Þá gætu íslensk stjórnvöld ekki tekið þátt í samstarfi ríkja á þessu sviði. Allt skipti þetta máli og ekki óeðlilegt að þeir sem bæru ábyrgð á öryggi almennings teldu sig ekki standa nægilega vel að vígi hefðu þeir ekki þau tæki sem aðrir teldu duga best.

Ég vakti einnig máls á því að um helgina hefðu innanríkisráðherrar nokkurra Evrópulanda komið saman í París og sammælst um að knýja ESB-þingið til að afgreiða svonefnda PNR-löggjöf, sjá hér.

Hér á landi er lögreglu heimilt að greina allar farþegaskrár og í því felst virkari landamæravarsla en að skoða vegabréf í lansamærahliði. Þetta er mikilvægt greiningarstarf sem skilar árangri í baráttu við skipulagða glæpahópa og hryðjuverkamenn. Hafa ber í huga að um 98% þeirra sem koma til landsins fara um Keflavíkurflugvöll og flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að haldið sé uppi virku eftirlits- og greiningarstarfi þar skiptir sköpum í öryggisgæslu lögreglu.