9.1.2015 23:45

Föstudagur 09. 01. 15

Hryðjuverkamennirnir í Frakklandi voru felldir í dag og nú tekur við uppgjörið við það sem gerðist og hvernig það gat gerst. Á sunnudaginn koma leiðtogar ESB-ríkja til Parísar til að sýna samstöðu með Frökkum. Boðað hefur verið að ræða eigi öryggisaðgerðir gegn hryðjuverkum á næsta fundi leiðtogaráðs ESB.

Íslensk yfirvöld hafa aðgang að sameiginlegum lögregluaðgerðum Evrópulanda í gegnum Europol en þau standa hins vegar utan við öflugasta samstarfið í baráttunni, það er leyniþjónustusamstarfið, engin lög gilda um það hér á landi. Fyrir liggur skýrsla um aðgerðir á þessu sviði til að Ísland verði gjaldgengt í þessu samstarfi. Á hinn bóginn hefur ekki verið nægur pólitískur vilji til að grípa til nauðsynlegra aðgerða.

Öll gögn um það sem skynsamlegast er að gera vilji stjórnvöld styrkja innviði til að takast á við hryðjuverkahættuna liggja fyrir hjá opinberum aðilum. Embætti ríkislögreglustjóra hefur gert grein fyrir sjónarmiðum sínum og mörgum stjórnmálamönnum er ljóst hvernig unnt er að taka á málinu. Umræðurnar fara hins vegar út og suður og hætta fljótt að snúast um efni málsins.

Til marks um óvænta stefnu umræðna er að nú skuli tekið til við að ræða afnám ákvæðis í almennum hegningarlögum um guðlast. Afnám þess er sjálfstætt úrlausnarefni án tillits til þess að hryðjuverkamenn myrða 12 manns á ritstjórnarskrifstofu vikublaðs í París til að verja heiður Múhameðs spámanns.

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því að í kjaradeilu sinni hafi læknar stuðst við öfluga almannatengla til að styrkja samningsstöðu sína gagnvart ríkisvaldinu og má jafnframt ráða af fréttinni að í kjaradeilum leggi aðilar vaxandi áherslu á áróður gagnvart þeim sem standa utan deilunnar til að styrkja stöðu sína við samningaborðið.

Fréttastofa ríkisútvarpsins flutti svo mikið af læknafréttum og hrakspám um það sem í vændum væri að boðskapur almannatenglanna fældi fólk frá að hlusta á fréttatímana. Þarna sannaðist enn að fréttamennska færist sífellt meira frá sjálfstæðri fréttaöflun sem reist er á áhuga og dugnaði fréttamannsins til matreiðslu hans á hráefni sem er forunnið af almannatenglum eða undir handarjaðri þeirra. Fréttastofa ríkisútvarpsins flytur meira af boðskap til neytenda en raunverulegar fréttir.