7.1.2015 19:50

Miðvikudagur  07. 01. 15

Í dag ræddi ég í þætti mínum á ÍNN við Pétur Óla Pétursson sem býr í St. Pétursborg í Rússlandi. Pétur Óli hefur verið leiðsögumaður þúsunda Íslendinga sem lagt hafa leið sína til Rússlands á undanförnum árum en hann hefur búið í Rússlandi frá 1995. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 annað kvöld.

Hinn 17. desember ræddi ég við Þorgrím Þráinsson rithöfund á ÍNN og má sjá hann hér. 

Fréttir herma að Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, velti fyrir sér framboði í embætti forseta Íslands ef Ólafur Ragnar Grímsson gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Jón Gnarr styrkti sig í dag í væntanlegri baráttu við Ástþór Magnússon um forsetaembættið. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, rituðu undir samstarfssamning á milli borgarinnar og háskólans um að koma á fót friðarsetri. Sameiginlega skipa stofnendur setursins Jón Gnarr sem formann ráðgjafanefndar þess. Dagur B. sagði mikinn feng að formennsku Jóns Gnarrs, hann hefði náð að vekja mikla athygli á málefnum friðar sem borgarstjóri. „Það er bissness í friði,“ sagði Jón Gnarr við athöfnina.

Í frjálsa vef-alfræðiritinu Wikipedia segir meðal annars um Ástþór Magnússon:

„Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995. Ástþór hefur hlotið tvenn mannúðarverðlaun, Gandhi verðlaunin og Heilaga Gullkrossinn frá Grísku rétttrúnaðarkirkjunni en það var UNESCO í Grikklandi sem tilnefndi Ástþór til verðlaunanna.

Athyglisvert er að Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands taki á þennan hátt afstöðu með Jóni Gnarr í friðarmálum en gangi fram hjá Ástþóri Magnússyni.