29.12.2014 19:00

Mánudagur 29. 11. 14

Laugardaginn 27. desember komu jafnaðarmenn og borgaraflokkarnir í Svíþjóð sér saman um fjárlög ársins 2015 og megindrætti fjárlaga til ársins 2022 þótt áfram sitji minnihlutastjórn í landinu. Þá sömdu flokkarnir einnig um að vinna saman að varnarmálum, lífeyrismálum og orkumálum. Hvatinn að þessu samkomulagi var vilji flokkanna til að afstýra þingrofi og kosningum í mars á næsta ári. Þeim stendur ógn af kosningum vegna mikils fylgis Svíþjóðardemókratanna sem sigruðu í þingkosningunum í september 2014 og hafa aukið fylgi sitt síðan. Helsta stefnumál þeirra er að sporna við fjölgun hælisleitenda og innflytjenda í Svíþjóð.

Vaxandi óánægja í Svíþjóð vegna innflytjendastefnu stjórnvalda minnkar ekki við að þingkosningum sé afstýrt. Líklegt er þvert á móti að Svíþjóðardemókratar styrkist.

Í Grikklandi hafa stjórnarflokkarnir gert allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir að þar verði rofið þing og boðað til kosninga. Þeim misheppnaðist að fá frambjóðanda sinn til forseta gríska lýðveldisins kjörinn á þingi í dag og við svo búið er þingrof óhjákvæmilegt og kosningar verða 25. janúar 2015, megi marka fréttir.

Ráðandi flokkar í Grikklandi óttast að missa forystu í hendur bandalags róttækra vinstrisinna, Syriza, sem vill hnekkja neyðarlánasamningum Grikkja og hverfa frá aðhaldsstefnunni í ríkisfjármálum sem fylgt hefur verið að kröfu ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hefur sjóðurinn tilkynnt að hann haldi að sér höndum gagnvart Grikkjum fram yfir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Eftir að ljóst var að stefndi í þingkosningar í Grikklandi sögðu bæði Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, og Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri ESB, að Grikkir yrðu að fylgja umsaminni stefnu, annað ylli vandræðum fyrir þá og aðrar evru-þjóðir. Er augljóst að innan Grikklands og utan munu talsmenn aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum leggja hart að Grikkjum að hafna stefnu Syriza í þingkosningunum.

Syriza vill hvorki að Grikkir kasti frá sér evrunni né ESB-aðild. Hitt er ljóst að næstu vikur verður því haldið að grískum kjósendum að atkvæði greitt Syriza auki líkur á úrsögn úr evru-samstarfinu. Til þessa hefur meirihluti Grikkja ekki viljað segja skilið við evruna og hræðsluáróður um hvað við taki án hennar hefur til þessa dugað til að halda Syriza frá stjórn Grikklands.