17.12.2014 19:15

Miðvikudagur 17. 12. 14

Í dag ræddi ég við Þorgrím Þráinsson rithöfund í þætti mínum á ÍNN og má sjá samtalið klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag. Þorgrímur sendir tvær bækur frá sér núna fyrir jólin. Hann vinnu mikið með ungu fólki og kynnumst við reynslu hans í þættinum – hún er einstæð vegna fjölmargra heimsókna hans í alla grunnskóla landsins.

Söguleg tímamót urðu í dag þegar forsetar Bandaríkjanna og Kúbu kynntu að þeir mundu vinna að því að ríkin tækju upp stjórnmálasamband að nýju en því var slitið 1961. Þá er einnig stefnt að því að aflétta viðskiptaþvingunum Bandaríkjamanna. Nú hafa Bandaríkjamenn sleppt þremur kúbverskum föngum, fengið tvo til baka, þar á meðal njósnara sem setið hefur 20 ár í fangelsi á Kúbu.

Ákvörðun Baracks Obama Bandaríkjaforseta verður umdeild eins og allar ákvarðanir um stórpólitísk mál og repúblíkanar gagnrýna hann fyrir að sýna kommúnistum á Kúbu of mikla undirgefni með litlum kröfum í skiptum fyrir þetta stóra skref – það kunni að festa einræði kommúnista á Kúbu í sessi. Boðskapur í þá veru hljómar ósennilegur. Líklegt er að hið sama gerist á Kúbu eins og annars staðar þar sem glufa myndast í stjórnkerfi kommúnista:  stjórnarherrarnir standast ekki kröfur fólksins um sífellt meira frelsi.

Bandaríkjaþing er að meirihluta skipað repúblíkönum, báðar deildir. Þingmenn verða að samþykkja fjárveitingu til að opna megi sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu og viðskiptabanninu verður ekki aflétt nema þingmenn breyti lögum.

Ef marka má fréttir CNN er hinn almenni Havana-búi í skýjunum vegna þessara tíðinda og dansar fólk  á götum úti. Fólkið hefur aldrei heyrt forseta Kúbu tala eins vinsamlega um Bandaríkjaforseta eins og Raoul Kastró gerði í dag. Málflutningur forsetans brjót í baga við allt sem þetta fólk hefur kynnst alla ævi sína því að flestir Kúbverjar muna ekki eftir sér nema undir stjórn kommúnista sem hefur flutt hatursáróður í garð forseta Bandaríkjanna í meira en hálfa öld.