11.12.2014 19:30

Fimmtudagur 11. 12. 14

Samtal mitt við Jóhönnu Kristjónsdóttur á ÍNN í tilefni bókar hennar Svarthvitir dagar má nú sjá hér á netinu.

Ég vek athygli á frétt sem birtist á bls. 64 í Morgunblaðinu í morgun og sagt er frá á Evrópuvaktinni eins og sjá má hér.

Það kemur ekki á óvart að bandarískar kafbátaleitarvélar leggi nú leið sína til Keflavíkurflugvallar og stundi þaðan eftirlitsflug eins og þær gerðu árum saman fram á tíunda áratuginn. Þær hurfu héðan endanlega fyrir 10 árum eða í febrúar 2004. Koma vélanna til Íslands nú í sumar minnir á hve hratt staðan í öryggismálum hefur breyst hér á norðurslóðum og í Evrópu allri vegna Úkraínudeilunnar.

Hugveitan European Leadership Network sendi nýlega frá sér skýrslu sem nær fram í nóvember á þessu ári þar sem lýst er nærri 40 hernaðarlegum atvikum sem orðið hafa síðustu átta mánuði og snerta samskipti rússneska hersins við vestræna aðila. Í skýrslunni segir að þegar á heildina sé litið blasi við mjög óhugnanleg mynd af virðingarleysi fyrir lofthelgi ríkja, neyðarklifi, yfirvofandi árekstrum í lofti og á sjó, sviðsettum árásum og öðrum hættulegum uppátækjum. Atvikin gerist reglulega og á landfræðilega stóru svæði.

Í skýrslunni er að finna lýsingu á 11 alvarlegum atvikum sem bera vott um vísvitandi árásarhug eða vilja til óvenjumikillar ögrunar sem kallar fram meiri hættu á stigmögnun en almennt gerist. Þar megi nefna ofríki í garð eftirlitsflugvéla, lágflug yfir herskip og sviðsettar rússneskar sprengjuárásir. Þá eru nefnd 3 sérlega hættuleg atvik þar sem miklar líkur voru á að tjón yrði unnið eða til beinna hernaðarárekstra kæmi: á síðustu stundu tókst að koma í veg fyrir árekstur milli áætlunarvélar og rússneskrar eftirlitsflugvélar; eistneskum öryggisstarfsmanni var rænt og Svíar efndu til umfangsmikillar kafbátaleitar. Þótt til þessa hafi tekist að koma í veg fyrir beina hernaðarárekstra telja skýrsluhöfundar að meiri árásargirni Rússa og aukinn harka af hálfu Vesturlanda gegn henni magni hættuna á að fyrir slysni komi til stigmögnunar og menn missi stjórn á atburðarásinni.