8.12.2014 19:15

Mánudagur 08. 12. 14

Forvitnilegt er að taka saman það sem mönnum dettur í hug að segja ríkisútvarpinu til varnar. Hér er gullkorn  Guðmundar Andra Thorssonar, dálkahöfunar Fréttablaðsins, frá því í morgun:

„Ríkisútvarpið er sameign íslensku þjóðarinnar sem vill hafa öflugt almannaútvarp hér á landi þar sem fólk fær að starfa af fagmennsku og heilindum en þarf ekki að búa við stöðugar árásir frá frekjuhundum.


Árásirnar á Ríkisútvarpið jafngilda árásum á Árnastofnun eða Veðurstofuna. Þetta er eins og að vera andvígur Þjóðminjasafninu. Þetta er eins og að berjast fyrir því að Esjan verði lögð niður.“

Engir ala meira á sundurlyndi vegna ríkisútvarpsins en starfsmenn þess sjálfir sem líta ekki á það sem sameign þjóðarinnar heldur sameign starfsmanna eins og dæmin sanna. Úr því að Guðmundur Andri nefnir Árnastofnun, Veðurstofuna og Þjóðminjsafnið til sögunnar hefur tekist að gjörbreyta þessum ríkisstofnunum á undanförnum árum án þess að allt fari á annan endann út af því enda er viðhorf starfsmanna til breytinga þar allt annað en á ríkisútvarpinu.

Að líkja fjölmiðli sem á að þróast í takt við tímann og taka mið af tækninýjungum og breytingum í fjölmiðlun við fjall sýnir best hve steinrunnir helstu opinberir málsvarar ríkisútvarpsins eru og hvílíkur óravegur er frá að unnt sé að ræða um stöðu og starfshætti ríkisútvarpsins í samtímanum við þá af nokkurri skynsemi.