29.11.2014 18:00

Laugardagur 29. 11. 14

Þegar stjórnarandstaðan tók í vikunni að ræða vönduð vinnubrögð vegna rammaáætlunar um virkjanakosti minnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á lýsingu í bók Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. utanríkisráðherra, á stjórnmálunum árið 2012 og þar á meðal hrossakaupunum innan ríkisstjórnar Jóhönnu um að VG styddi ESB-umsóknina en Samfylkingin rammaáætlunina. Að þessi hrossakaup hafi bundið alþingi um aldur og ævi eða núverandi ríkisstjórn er fráleitt.

Af ræðum stjórnarandstæðinga á þingi fimmtudaginn 27. nóvember má ráða að vísan Bjarna í Össur hitti þá illa og féllu forvitnileg ummæli af því tilefni. Oddný G. Harðardóttir, flokkssystir Össurar, sem sat með honum í ríkisstjórn árið 2012 sagðist ekki hafa lesið það sem hún kallaði „ævisögu“ Össurar. Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG) talaði um „skáldsögu“ Össurar og síðan „einhver[n] samsetning á skáldsögu í bland við æviminningar fullorðins manns“. Svandís Svavarsdóttir (VG) sagði ríkisstjórnina ekki hafa „aðrar heimildir en jólabókaflóðið í fyrra máli sínu til stuðnings“  og það væri „náttúrlega alveg afskaplega vandræðalegt“.

Róbert Marshall (Bf), fyrrverandi flokksbróðir Össurar, átti erfitt með að hemja sig eins og þessi orð sýna:

Þvílíkt kjaftæði. Þvílíkt rugl. Þvílíkir hræsnarar eru það sem láta slíkt [stjórnarsáttmálann] frá sér og segjast starfa eftir því og koma síðan með svona vinnubrögð hérna inn í þingið. Þvílík hræsni. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins í þessum þingsal […] af því að einhver annar hefur gert eitthvað sem er líka slæmt. Það er leiðarljósið á borði hæstv. iðnaðarráðherra, bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hún er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þvílík hræsni og þvílíkt kjaftæði.“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar (Bf), sagði: „Ég hef ekki lesið ævisögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ef ég les í bókum eitthvað sem mér finnst dæmi um slæm vinnubrögð hugsa ég: Ég ætla ekki að gera svona, ég ætla að gera betur.“

Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson studdu ríkisstjórn Jóhönnu og fundu aldrei neitt að hrossakaupunum um  ESB og rammaáætlunina. Hve lengi þeir líta á sjálfa sig sem pólitíska hvítvoðunga og komast upp með það er stjórnmálafræðilegt rannsóknarefni.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra (S), sagðist engan hafa heyrt segja að Össur hefði farið rangt með og sagt ósatt í bók sinni. Á því væri hins vegar munur að véla um hluti í bakherbergjum eða leggja fram um þá tillögu til þingsályktunar.