28.11.2014 21:45

Föstudagur 28. 11. 14

Herta Müller hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2009. Bækur hennar og fyrirlestrar snúast ætíð um einræði og áhrif þess á líf þjóða og einstaklinga. Hún er frá Rúmeníu og bjó lengi undir eftirliti öryggislögreglunnar þar, Securitates.

Nýlega kom út viðtalsbók við Hertu Müller í Þýskalandi undir heitinu Men Vaterland war ein Apfelkern – Föðurland mitt var eplakjarni. Þar ræðir hún við Angeliku Klammer um æsku sína og uppvöxt undir einræði og hvaða áhrif það hafði á hana sem höfund.

Vegna útgáfu bókarinnar hefur Herta Müller veitt þýskum fjölmiðlum viðtöl. Í Der Spiegel sagði hún að bókin og skoðanir sínar í henni ættu brýnt erindi við samtímann vegna framgöngu Vladimírs Pútíns og stjórnarhátta hans. Hún segir að nú geti menn kynnst sambærilegum ógnum og hún bjó við í Rúmeníu í Rússlandi og Úkraínu.

Hún segir að eins og aðrir íbúar Austur-Evrópu hafi hún um langt árabil búið við kúgun af hálfu þvingunarvalds (flokks, hers, lögreglu og leyniþjónustu) að sovéskri fyrirmynd. Liðsmenn hafi hlotið þjálfun í Moskvu og verið stjórnað þaðan fram til ársins 1989. Austur-Evrópubúar hafi mátt þola alltof náin kynni af pólitískri frekju Rússa, þjóðernishroka þeirra og efnahagslegu tillitsleysi í gripdeildum meðal nágranna sinna. Engri þjóð hafi verið leyft að móta eigið svipmót og gæta eigin hagsmuna. Eftir að Sovétríkin hrundu hafi menn andað léttar í þessum löndum í von um að aldrei framar myndu þeir kynnast öðru eins. Þessi von hafi orðið að engu eftir að Pútin hafi farið eins og þjófur inn á Krímskaga og sölsað hann undir sig. Við það hafi óttinn að nýju heltekið þjóðir Austur-Evrópu.

Í augum Hertu Müller er Pútín ekki annað en útsendari KGB sem vill snúa klukkunni aftur til Sovéttímans. Hann og klíka hans hafi alla þræði Rússlands í hendi sér. KGB-hugsunarháttur hans birtist æ oftar og hann sjái óvin í hverju horni. Hann þarfnist óvina til að geta logið upp á þá og þannig þjappað Rússum að baki sér. Hann segist verndari hins slavneska heims sem úrkynjaðir Vesturlandabúar vilji eyðileggja. Honum sé nauðugur einn kostur að veita Rússum erlendis vernd.

Pútín hafi hafið árás í krafti rússnesku leyniþjónustunnar með því að senda rússneskar sérsveitir á vettvang. Hann ætli að grafa undan stjórnvöldum í Úkraínu – undirróður sé orðinn fastur liður í utanríkisstefnu Pútíns.

Þetta eru sterk varnaðarorð sem hafa ber í huga þegar framvinda mála í Úkraínu, Georgíu og Moldóvu er metin.  Þá er augljóst að undirróður Pútíns á hljómgrunn vestar í Evrópu og á hinum  ólíklegustu stöðum.