27.11.2014 18:45

Fimmtudagur 27. 11. 14

Í dag fluttu Hákon L. Åkerlund og Ægir Þórðarson, öryggissérfræðingar Landsbankans fyrirlestur á fundi Varðbergs um ógnir sem steðja að tölvum Íslendinga um þessar mundir. Hér er um brýnt viðfangsefni að ræða því að í netheimi er háð stöðugt stríð sem teygir sig inn í tölvu hvers einasta manns eins og sannaðist í máli þeirra félaga. Blaðamaður Morgunblaðsins var á fundinum og skrifaði um hann á mbl.is og má lesa hana hér.

Líklega eru margir sem telja að Íslendingar þurfi ekki að sýna aðgát vegna hernaðarins og glæpastarfseminnar sem háð er í netheimum. Andvaraleysi í þessu efni kallar hins vegar hættur yfir alla tölvueigendur. Í máli öryggissérfræðinganna kom fram að lög hér á landi til verndar notendum í netheimi væru ófullnægjandi og stæðust ekki samanburð við það sem væri í öðrum löndum.

Eins og nýlegar umræður sanna láta margir eins og ástæðulaust sé fyrir íslensk yfirvöld að vera við öllu búin vegna hættu af hryðjuverkamönnum Íslamska ríkisins eða öðrum. Nú hefur Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, gengið fram og kynnt að lögregla þurfi að aukinn vopnabúnað og vísað til vaxandi hættu að mati yfirvalda í öllum Evrópulöndum. Hér má sjá frétt um þetta

Fréttin er af vefsíðu ríkisútvarpsins ruv.is en af afstöðu starfsmanna þess má álykta að þeir telji ekki þörf á að gera hér sérstakar öryggisráðstafanir á sama hátt og gert er í nágrannaríkjum. Má sjá dæmi um þá skoðun hér. 

Séu menn þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að leggja sama mat á hryðjuverkahættu hér og gert er annars staðar telja þeir líklega einnig að ekki sé ástæða til að verja eigin tölvur og annarra, hættan sé önnur hér en annars staðar. Á Varðbergsfundinum í dag bentu öryggissérfræðingar Landsbankans á að hættulegasta viðhorfið væri að láta eins og þetta gerðist aldrei hér – það gerðist nefnilega oft á dag og í sífellu að ráðist væri á tölvur Íslendinga til komast yfir persónupplýsingar og fjármuni.

 

Öryggissérfræðingar Landsbankans hafa fingurinn á púlsinum og átta sig nákvæmlega á gangi mála. Þeir standa að þessu leyti jafnfætis starfsbræðrum erlendis og bregðast oft fyrr við hættu en þeir. Lögreglan stendur hins vegar verr að vígi en starfsbræður erlendis, ekki aðeins vegna skorts á vopnum heldur einnig vegna skorts á upplýsingum af því að hér á landi er engin leyniþjónusta.