10.11.2014 20:20

Mánudagur 10. 11. 14

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu í dag niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar á fundi í Hörpu. Aðgerðin vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum, sem var innan við fertugt við hrun, á lítið eigið fé í húsnæði sínu og skuldar á bilinu 15 til 30 milljónir króna. Leiðréttingin lækkar höfuðstól íbúðalána um 150 milljarða króna á næstu 3 árum og við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%. 

Með beinu  og óbeinu framlagi ríkisins er öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008-2009 leiðrétt til fulls. Eiginfjárstaða 56.000 heimila styrkist með beinum hætti og um 2500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu.

Fjármögnunartími aðgerðanna verður styttur úr þremur árum í eitt. Það tryggir betri nýtingu fjármuna  sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur til fjármálastofnana og gerir stjórnvöldum kleift að greiða hærri fjárhæðir inn á höfuðstól lána. Verða 40 milljarðar greiddir inn á leiðréttingarlánin á þessu ári, 20 milljarðar í upphafi næsta árs og 20 milljarðar í byrjun árs 2016.

Eftir að hafa hlustað á Sigmar Guðmundsson ræða þetta mál við forsætisráðherra í Kastljósi þar sem spyrjandinn gaf ráðherranum varla svigrúm til að svara og ýtti undir þá skoðun að ætlunin væri að hygla hinum betur stæðu sannast enn að fréttastofa ríkisútvarpsins lítur ekki á það sem meginhlutverk sitt að upplýsa og skýra. Markmiðið virðist vera að skapa úlfúð. Í þeim tilgangi hefur jafnan reynst heilladrjúgt að ýta undir öfund.

Boðað var til mótmæla klukkan 17.00 í dag á Austurvelli. Fréttamaður ríkisútvarpsins var í beinni útsendingu í fréttum á slaginu 17.00. Var heldur dauft yfir frásögninni vegna þess hve fáir voru á vellinum þótt einhverjir hefðu tekið til við að berja í eitthvað. Fréttamaðurinn huggaði sig og hlustendur við að lögreglumaður hefði sagt sér að fólk kæmi yfirleitt ekki fyrr en klukkan 17.30! Því var sem sagt komið á framfæri að allt í lagi væri að koma of seint. Klukkan 17.30 sagði fréttastofan á ruv.is að 1.500 manns hefðu komið saman á Austurvelli.