2.11.2014 22:20

Sunnudagur 02. 11. 14

Kjarninn miðlar ehf. tilkynnti í dag að félagið hefði lokið við að auka hlutafélag sitt og Hjálmar Gíslason, sem föstudaginn 31. október seldi DataMarket til bandaríska fyrirtækisins Qlik, kæmi inn í hluthafahóp félagsins og yrði stjórnarformaður. Söluverðið á DataMarket var á bilinu 11,8 - 13,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 1.439-1.647 milljónir króna að sögn Viðskiptablaðsins.

Auk Hjálmars sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur og starfsmaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs, í stjórn hlutafélagsins.

Upphaflega var ætlunin að Kjarninn yrði miðill á spjaldtölvum og farsímum en honum hefur nú verið breytt í venjulegan fréttavef.

Þá hefur verið stofnað sérstakt ráðgjafaráð sem verður stjórnendum og stjórn Kjarnans innan handar. Ágúst Ólafur Ágústsson lögfræðingur og fyrrum varaformaður Samfylkingarinnar, er meðal ráðgjafanna.

Af þessu má ráða að samhliða því sem fjárhagur Kjarnans er bættur fær hann á sig svipmót málgagns fyrir Samfylkinguna.

Þessi tilkynning um Kjarnann berst daginn eftir að Kristjón Kormákur Guðjónsson var ráðinn ritstjóri  vefblaðsins Pressunnar í eigu Vefpressunnar sem einnig á Bleikt og Eyjuna. Kristjón Kormákur tók við af Birni Inga Hrafnssyni sem verður útgefandi allra miðla Vefpressunnar en hann er aðaleigandi hennar.

Laugardaginn 1. nóvember sagði ríkisútvarpið frá því að viðræður væru hafnar milli Vefpressunnar og útgáfufélags DV um samruna. Björn Ingi staðfesti réttmæti fréttarinnar í samtali við Vísi í dag. Málið mundi skýrast á allra næstu dögum. Björn Ingi sagði að eigendur DV hefðu nálgast eigendur Vefpressunnar vegna málsins og sjálfsagt aðra fjölmiðla líka

Björn Ingi Hrafnsson var á sínum tíma aðstoðarmaður Halldórs Ágrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, og síðar sat hann í borgarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn. Í vikunni var sagt frá því að framsóknarmenn hefðu borið víurnar í DV á meðan blaðið var í höndum Reynis Traustasonar.