25.10.2014 21:30

Laugardagur 25. 10. 14

Ögmundur Jónasson innanríksiráðherra sagðist hlynntur framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skömmu fyrir þingkosningar í apríl 2013 ritaði hann undir samkomulag við Jón Gnarr borgarstjóra sem átti að bæta aðstöðu fyr­ir farþega og þjón­ustuaðila á Reykja­vík­ur­flug­velli. Í sam­komu­lag­inu fólst meðal ann­ars að fallið var frá fyrri áform­um um bygg­ingu sam­göngumiðstöðvar í Vatns­mýri og að norðaust­ur/​suðvest­ur flug­braut­in yrði lögð af og landið sem losn­aði sunn­an vall­ar­ins skipu­lagt und­ir blandaða byggð.

Mánudaginn 21. október efndu samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni til fundar þar um framtíð flugvallarins. Þau hvöttu Reykjavíkurborg til að fresta útgáfu framkvæmdaleyfis vegna byggingaáforma á Hlíðarendasvæðinu enda ógnuðu þau norðaustur/suðvestur brautinni. Borgaryfirvöld ætluðu með leyfinu að hunsa athugasemdir fólks í flugrekstri, sjúkraflutningum og flugöryggismálum.

Hjálmar Sveinsson úr Samfylkingunni er formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Hann hefur einstakt lag á að búa ákvarðanir ráðsins í næsta óskiljanlegan búning. Hann sagði á ruv.is 22. október í tilefni af áhyggjum vegna byggingaráformanna:

„Það er einhver misskilningur í gangi því að þetta framkvæmdaleyfi snýst ekki um byggingarleyfi heldur snýst þetta um að leggja þarna veg sem á að aðskilja íþróttasvæðið frá tilvonandi íbúðabyggð. Þannig að framkvæmdaleyfið fyrir þessu getur vel farið af stað án þess að það hafi nokkuð með norðaustur-suðvestur brautina eða flugvöllinn að gera yfirleitt.“

Þetta er gegnsær útúrsnúningur.

Í Morgunblaðinu í dag birtist opið bréf frá Þorkeli Á. Jóhannssyni flugmanni og Vali Stefánssyni, formanni Félags flugmanna og flugvélaeigenda, til ISAVIA og borgarstjóra með harðri ádeilu á hvernig staðið hefur verið að stjórnsýslu vegna áhættumats á áhrifum brotthvarfs norðaustur/suðvestur flugbrautarinnar. Eftir að fyrir lágu niðurstöður í matinu sem sýndu að brotthvarf brautarinnar skerti öryggi flugvallarins á óviðunandi hátt hefur framgangur málsins á opinberum vettvangi verið frystur. Auk þess segja bréfritarar að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fullyrt að það verði ekki niðurstaða áhættumatsins að öryggi vallarins skerðist á þennan hátt. Telja bréfritarar að borgarstjóri eigi að skýra frá sérfræðilegri vitneskju sinni um málið. Það kunni að leysa þann rembihnút sem málið virðist ratað í innan ISAVIA.

Við blasir að flugvallarmálið er enn í hnút vegna tvöfeldni þeirra ráðamanna sem bera ábyrgð á lausn þess.