16.10.2014 21:30

Fimmtudagur 16. 10. 14

Varðberg efndi til hádegisfundar í dag þar sem Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, flutti erindi um NATO og nýjar hættur. Fundurinn átti að vera í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins en fyrir mistök var salurinn tvíbókaður og fluttum við okkur því upp á sjöttu hæð í húsi Þjóðminjasafnsins þaðan sem útsýnið er einstakt til austurs og vesturs.

Birgi mæltist vel og tími gafst til umræðna. Af orðum Birgis mátti ráða að Bandaríkjastjórn sýndi öryggismálum norðurslóða og þar með Íslands meiri áhuga en áður. Hann tók undir með Árna Gunnarssyni, fyrrv. þingmanni Alþýðuflokksins, sem vitnaði í fyrrv. foringja í Bandaríkjaher sem hefði sagt að í hernum gerðu menn sér grein fyrir að mistök hefðu verið gerð með brottför varnarliðsins frá Íslandi.

Einkennilegt var að heyra efasemdarraddir meðal fundarmanna um aðild Íslands að refsiaðgerðum gegn Rússum vegna atlögu þeirra að Úkraínumönnum og innlimunar Krímskaga.  Fulltrúi rússneska sendiráðsins var á fundinum og gat ekki gefið neina aðra skýringu á að Ísland væri ekki á rússneskum bannlista en að ríkisstjórn Rússlands hefði ákveðið að svo yrði.

Síðdegis fórum við í Listasafn Íslands þar sem 130 ára afmælis safnsins var minnst með því að opna VASULKA-stofu, gagnasafn Steinu & Woody Vasulka, miðstöð íslenskrar vídeó- og margmiðlunarlista.  

Það er einkennilegt hve miklar umræður geta farið fram vegna skoðana Bryndísar Loftsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, á matarreikningnum. Hefði þetta verið stórmál áður en hún lýsti skoðun sinni hefðu pólitískir andstæðingar sjálfstæðismanna reynt að bæta stöðu sína með því að flagga tölunum. Talnadeilurnar núna eru aðeins til marks um að stjórnarandstaðan er í molum og fer úr einu vígi í annað eftir því hvernig vindur blæs í fjölmiðlum í stað þess að leiða ígrundaða stefnu gegn ríkisstjórninni.