15.10.2014 20:00

Miðvikudagur 15. 10. 14

Í þætti mínum á ÍNN í kvöld ræði ég við Árna Larsson skáld sem gaf út sína fyrstu bók Uppreisnina í grasinu hjá Almenna bókafélaginu árið 1972 en hefur síðan gefið út á eigin vegum 11 ljóðabækur. Þátturinn er sýndur klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í Staksteinum Morgunblaðsins er í dag sagt frá ótrúlega illa unninni frétt á ríkisútvarpinu vegna flókins máls sem snertir aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu og hið tevvgja stoða kerfi milli EFTA og ESB sem myndar efnahagssvæðið.  Málið snýst um hvort þetta tveggja stoða kerfi haldi gagnvart hertum reglum ESB um fjármálaeftirlit og fleira.

Á fundi fjármálaráðherra EES-ríkjanna þriðjudaginn 14. október var frá því gengið að tevvgja stoða kerfið gilti áfram – að sjálfsögðu enda er EES-samningurinn í fullu gildi. Um þetta má lesa hér.

Í fréttum ríkisútvarpsins um þetta mál sagði:

„Samkomulag hefur náðst um innleiðingu reglna um samevrópskt fjármálaeftirlit í EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Lúxemborg. Með því verður tryggt að Evrópulöggjöf sem byggir á viðbrögðum við alþjóðlegu fjármálakreppunni taki gildi í ríkjunum þremur, þar á meðal löggjöf um þrjár evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði.

Þar sem stofnanirnar hafa meðal annars vald til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja fela reglurnar í sér framsal framkvæmdavalds sem stjórnarskrá Íslands heimilar ekki.

Fjármálaþjónusta er mikilvæg fyrir efnahag Lúxemborgar sem þar af leiðandi hefur þrýst mjög á um að reglurnar verði innleiddar. Samkomulagið felur í sér að Eftirlitsstofnun EFTA tekur allar bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum og hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staðfesti samkomulagið fyrir Íslands hönd en reglurnar verða lögfestar hér á landi á næstunni.“

Það er rétt hjá höfundi Staksteina að þessi frétt er stórmerkileg. Þarna er ruglast á Lúexmborg og Liechtenstein og því slegið föstu að Bjarni Benediktsson hafi gerst brotlegur við stjórnarskrána þegar samkomulagið er einmitt á þá leið að tryggja að ekki sé farið gegn stjórnarskránni.