8.10.2014 21:00

Miðvikudagur 08. 10. 14

Á ÍNN má nú sjá samtal mitt við Margeir Pétursson kaupsýslumann um stöðu mála í Úkraínu. Margeir rekur banka í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu og hefur fylgst náið með gangi mála í landinu í um einn áratug. Næst verður samtalið sýnt klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Í dag var fundur í hátíðarsal Háskóla Ísalands þar sem þess var minnst að Jónas H. Haralz hefði orðið 95 ára 6. október hefði hann lifað.  Fjallað var um leiðir til að losna við höftin sem sett voru fyrir sex árum og hafa þau frekar verið hert síðan í stað þess að aflétta þeim eins og sagt var að ætti að gera 10 til 24 mánuðum eftir setningu þeirra.

Jónas H. Haralz lagði sitt af mörkum til að losna við höftin sem sett voru á fjórða áratugnum og voru hér við lýði í rúm 60 ár. Hann var eindreginn talsmaður þess að Íslendingar gerðust þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi um efnahags- og viðskiptamál. Hann studdi aðild að OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, EFTA og EES auk þess að mæla með aðild að ESB eins og hann gerði eftir bankahrunið 2008.  Taldi hann þá nauðsynlegt að taka upp evru.