7.10.2014 20:10

Þriðjudagur 07. 10. 14

Í dag var efnt til samkomu í Borgarskjalasafninu í tilefni af 60 ára afmæli þess. Sex ár eru nú liðin frá því að við systkinin ákváðum að afhenda safninu skjöl föður okkar og í Morgunblaðinu í dag segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður að 30 þúsund þeirra hafi verið skráð á vefsíðu safnsins eins og má sjá hér

Í safninu voru í dag til sýnis skjöl sem það hefur nýlega fengið frá aðstandendum Björns Þórðarsonar sem var forsætisráðherra í utanþingsstjórninni 1942 til 1944. Hann er þriðji forsætisráðherrann sem tengist Borgarskjalasafninu vegna þess að safnið hýsir einkaskjalasafn hans. Hinir tveir eru Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson.

Björn Þórðarson er hinn eini þessara þriggja sem hélt dagbók þegar hann var ráðherra. Vitnað var til dagbókar hans í Morgunblaðinu um helgina og sagði þar frá því að hann hefði séð föður minn gretta sig (!) í þingsalnum í desember 1942 þegar Björn kynnti sig og stjórn sína fyrir þingheimi.

Þessi lýsing á reiðilegum viðbrögðum föður míns falla að þeirri skoðun sem ég heyrði hann oft lýsa, að það hefði verið vansæmd fyrir stjórnmálamenn að koma sér ekki saman um myndun ríkisstjórnar og verða að una því að utanþingsstjórn sæti þegar Ísland varð sjálfstætt lýðveldi.

Orðalagið í dagbók Björns Þórðarsonar bendir til þess að hann hafi einnig verið reiður þegar hann trúði henni fyrir þessari skoðun sinni. Þetta voru miklir spennutímar í stjórnmálum. Heimsstyrjöld háð og tekist á um rétt Íslendinga til að segja skilið við Dani.

Gögnin í söfnum forsætisráðherranna þriggja í Borgarskjalasafninu gefa sagnfræðingum nýtt og áður óþekkt tækifæri til að rýna í atburðina sem tengdust stofnun lýðveldisins nú 70 árum síðar. Raunar er merkilegt að þessi saga hafi ekki enn verið skráð.