3.10.2014 19:10

Föstudagur 03. 10. 14

Ég hef hér í tvo daga sagt frá viðskiptum mínum  við Póstinn. Allt er þegar þrennt er. Forstöðumaður þjónustumála hjá Póstinum sendi mér tölvubréf í morgun og ég sendi gögn málsins til skoðunar hjá honum. Málið er leyst á farsælan hátt án frekari eftirmála.

Vissulega eru ekki allir sem halda úti síðum sem þessari þar sem þeir geta lýst reynslu sinni þegar þeir verða undrandi yfir viðskiptaháttum. Hvað sem því líður eru margar leiðir til að koma sjónarmiðum á framfæri. Sagan af konunni sem lenti í því að talningarvél Arion-banka gleypti næstum allan sjóð hennar er sláandi dæmi um atvik sem dregur að sér mikla athygli. Af hálfu bankans hefur nú verið gripið til ráðstafana sem eiga að útiloka svipuð tilvik í framtíðinni.

Nokkrar umræður eru áfram um ríkisútvarpið og fjárhagsvandræði þess. Vigdís Hauksdóttir og Karl Garðarsson, þingmenn Framsóknarflokksins, hafa nefnt þá leið til að lækka skuldir ríkisútvarpsins að selja rás 2. Viðbrögðin láta ekki á sér standa.

Egill Helgason, álitsgjafi og starfsmaður ríkisútvarpsins, segir á vefsíðu sinni fimmtudaginn 2. október:

„Nú kemur fram sú hugmynd að selja Rás 2 til að afla fjár.

Maður spyr hvað eigi að selja? Óla Palla? Geisladiska? Nokkrar tölvur sem innihalda tónlist? Einhvern tækjabúnað? Svosem eitt stúdíó? Nafnið? Það er satt að segja ekki eftir miklu að slægjast og arðurinn af útvarpsrekstri er ekki mikill. En Rás 2 hefur haft það menningarhlutverk að sinna nýrri tónlist, ekki síst þeirri íslensku – ég held varla að einkaaðilar séu að keppast um að komast í það.“

Við erum sem sagt upplýst um að annaðhvort verði rás 2 ekki metin til fjár eða hún sé í raun einskis virði. Óli Palli sem Egill nefnir svo stendur að sjálfsögðu vörð um rásina og upplýsir gjörsamlega miður sín að hann hafi kosið Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum! Varla er það þess vegna sem Egill gefur til kynna að rás  2 sé í raun einskis virði vilji menn nota andvirði hennar til að létta skuldum af ríkisútvarpinu.

Stærsta skrefið sem stigið hefur verið til að lækka risið á rás 2 er ekki hugmyndin um að selja hana heldur hitt að fella hana og sérkenni hennar sem auglýsingastöðvar inn í rás 1, hlustendum þeirrar rásar til mikils ama.